Árni Guðmundsson, félagsuppeldisfræðingur og formaður foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, segir ýmislegt benda til þess að vímuefnaneysla ungmenna sé að aukast þrátt fyrir að niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar bendi til annars.
„Ég fullyrði að það er ekki hægt að draga ályktanir af niðurstöðum íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, en segjum að þetta sé rétt, þá stendur eftir að starfsfólk félagsmiðstöðvanna, sér allt annan veruleika. Þeir sjá mikla hópamyndun ólíkt því sem var, og neyslu vímuefna.“
Árni bendir líka á að íþróttahreyfingar hafi gleymt tilgangi sínum og færst frá öllu forvarnastarfi. „Það sjáum við til dæmis bara með áfengissölu á leikjum, með aukinni nikótín neyslu ungmenna í formi munntóbaks,“
Hann segir þetta ekki síst alvarlega þróun í ljósi þess að íslenska forvarnamódelið sé útflutningsvara, og sem slík í raun ferskvara. Árni bendir á að það hafi orðið samdráttur í fjárveitingum til æskulýðs- og forvarnarstarfs og þannig dregið úr getu grasrótarinnar til að sinna hlutverki sínu. Þjónusta við börn og ungmenni í gegnum félagsmiðstöðvar og frístund hafi verið skorin niður, sem birtist í sífellt takmarkaðri opnunartíma og skertri starfsemi. Áfengissala íþróttafélaga vinnur beinlínis á móti öllum grundvallarmarkmiðum módelsins og sýnir algert ábyrgðarleysi að hans mati. Foreldrafélög og samstaða foreldra er ekki af sama styrk og áður. Fjölmiðlar og áhrifavaldar eru margir hverjir í beinni eða óbeinni þjónustu áfengisiðnaðarins. Minnkandi áhersla stjórnvalda séu á forvarnir sem meðal annars komi fram í lægri fjárframlögum.
Árni rengir ekki niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, en bendir á að það væri varhugavert að fylgja þeim einum í mati ráðherrans, sem gagnrýndi Morgunblaðið hart fyrir að benda á að hér birtust tveir ólíkir veruleikar þegar kæmi að vímuefnaneyslu ungmenna. Annar væri svar ungmenna í könnun, hitt er veruleikinn, það sem starfsfólk félagsmiðstöðva sjá, og svo inngrip til að mynda barnaverndar.
„Þegar niðurstaðan er skoðuð, má leiða líkur að því að þeir sem neyta áfengis eru að auka þá neyslu og að þeir sem eigi í erfiðleikum, eigi við dýpri vanda að etja en áður,“ segir Árni. Hann telur skorta gögn til þess að fullyrða nokkuð, og nú liggi á stjórnvöldum að hlúa að málaflokknum og rannsaka hann betur og með víðtækari hætti.
Árni er aðjúnkt samhliða öðrum störfum.
Heimildin nóv 2025
