Óáfengt já takk

Stækkandi hópur fólks velur að sleppa áfenginu af ýmsum ástæðum og við ýmis tækifæri og tengist ekki alltaf bindindismönnum eða alkóhólistum. Óáfengir drykkir eru einfaldlega góður valkostur fyrir þá sem vilja gera sér dagamun og halda samt ráð og rænu og góðri heilsu. Aukið úrval óáfengra drykkja í verslunum gerir þetta val auðveldara en einnig getur fólk blandað drykki sem henta tækifærinu; afmæli, útskrift, brúðkaup, jól, hátíð eða fjölskylduboð.

Stóraukið framboð er á drykkjarvörum af öllum gerðum og er eftirspurnin á þessari vöru því í beinu samhengi. Ásókn í óáfenga drykki er stór partur af þessum drykkjaáhuga og nú þurfa þeir sem panta sér óáfengt á veitingastöðum ekki lengur að skera sig úr frá þeim sem vilja gera vel við sig í mat og drykk. Það getur verið lífsstíll að nota bara óáfengt, gera óáfengu hátt undir höfði og temja sér að óáfengt geti verið tákn um gæði.

Ef þú ert gestgjafinn eru hér góð ráð:

  • Berðu alltaf fram vatn hvaða drykk sem þú annars veitir með matnum. Ekki gera ráð fyrir að gestirnir slökkvi þorstanum í þeim drykkjum, heldur vatninu.
  • Hafðu sérstakt glas undir vatnið. Örlítill sítrónusafi eða sneið gefur vatninu ferskt bragð.
  • Byrjaðu máltíðina með fremur súrum (þurrum) drykk sem örvar meltingarfærin. Sætir drykkir koma síðar.
  • Óáfeng vín geta með góðum árangri komið í stað áfengra við matargerð.
  • Sumum finnst óþægilegt að biðja um óáfengt ef flestir umhverfis þá drekka áfengi. Gerðu þeim lífið auðveldara og öðrum tryggara; gakktu um við og við og bjóddu óáfenga drykki.
  • Notaðu hugarflugið við val og gerð óáfengra drykkja.


Hér má finna uppskriftir
við möguleg tækifæri og nýjar óáfengar munu bætast við. Góða skemmtun.