Forvarnastarf gegn áfengis- og vímuefnaneyslu er liður í að skapa börnum góð uppeldisskilyrði. Með því að styðja börn og ungmenni til að hafna neyslu áfengis og annarra vímuefna er stuðlað að velferð þeirra og lífshamingju.

Í forvarnastarfi er lögð höfuðáhersla á að ná til barna og unglinga í ljósi þess að í æsku er lagður grunnur að framtíð hvers einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Ungt fólk er veikara fyrir gagnvart neyslu vímuefna en fullorðnir og rannsóknir sýna að því seinna sem ungt fólk byrjar neyslu áfengis og tóbaks því minni líkur eru á að það leiðist í neyslu vímuefna, hætti í skóla eða lendi í öðrum erfiðleikum. Þá verður að hafa í huga að börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir áróðri og hvatningu til neyslu áfengis og annarra vímuefna. Með fræðslu, upplýsingastarfi og hvatningu til heilbrigðra lífshátta er leitast við að sporna gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.

Verkefnið ÉG ætla að bíða
Ýmsar leiðir hafa verið farnar í forvarnastarfi gagnvart börnum og ungmennum, s.s. fræðsla um skaðsemi vímuefna og hvatning til þess að neyta ekki slíkra efna. Hvatning til heilbrigðra lífshátta, s.s. íþrótta- og félagsstarfs er einnig ríkur þáttur í forvörnum.

Hvatningarverkefnið „ÉG ætla að bíða” hófst haustið 2005 að frumkvæði félagasamtaka í landinu og hefur að markmiði að vekja börn og ungmenni til vitundar um hvað felst í ákvörðun um að hefja neyslu vímuefna og hvað vinnst við það að hafna þessum efnum. Leitað var til ungmennanna sjálfra um hvaða áherslur og framsetning væri líklegust til að ná eyrum þeirra og jafnaldranna. Niðurstaða þeirra var sú að áfengi væri svo áberandi og ríkur þáttur í lífi fólks að unglingar meðvitað og ómeðvitað gerðu ráð fyrir að þeir muni einhvern tímann hefja neyslu þess. Öðru máli gegndi með tóbak og ólögleg vímuefni. Almenn andúð samfélagsins gegn þeim endurspeglaðist í viðhorfum ungmenna. Þess vegna væri mikilvægast að beina sjónum að áfengisneyslu barna og ungmenna og hvetja þau til þess að byrja áfengisneyslu ekki á unglingsaldri. Ungmennin bentu einnig á að unglingar litu á sig sem sjálfstæða einstaklinga og því væri vænlegast til árangurs að höfða til þeirra á þeirri forsendu. Með því að vísa til hvers og eins væri einnig tekið mið af því að þroski, viðhorf og aðstæður unglinga væri mismunandi og því erfitt að ná til allra með einföldum skilaboðum eða upplýsingum.

Ábendingin sem felst í yfirskrift verkefnisins „Ég ætla að bíða” vísar til þess að hver og einn tekur ákvörðun á sínum forsendum. Í húfi er hans eigið líf og hamingja og sýn fólks á sjálft sig, aðstæður sínar og framtíð er einstaklingsbundin. ,,Ég ætla að bíða” felur einnig í sér niðurstöðu að athuguðu máli, niðurstöðu um bíða með að taka ákvörðun eða fresta því að hefja neyslu vímuefna. „Ég ætla að bíða” vegna þess að ég veit hvað er í húfi og vil ekki leggja líf mitt og velferð í hættu þar til ég hef öðlast meiri þroska, þroska sem eykur líkur á að ákvörðun mín byggist á ábyrgð; jafnvel að sleppa því alveg að nota vímuefni.

Verkefnið var mótað af ungmennum sem var boðin þátttaka um að senda tillögur um þeirra ástæður fyrir því að bíða með neyslu vímuefna.  Bæði voru búin til kort og veggpspjöld með þessum hugmyndum og dreift til allra skóla og félagsmiðstöðva árin sem verkefnið var unnið fyrst 2005 – 2007.  Á póstkortum sem send voru til allra ungmenna var síðan hægt að senda inn frekari hugmyndir um ástæður þeirra ákvörðunar unglinga að „bíða“.  Alls bárust þannig yfir 4000 hugmyndir frá jafnmörgum ungmennum, nokkar birtast hér en aðrar eru komnar í pott sem áfram verður safnað í og unnið úr síðar þegar verkefninu verður aftur fleytt af stað.

Nokkrar góðar hugmyndir frá 12 – 15 ára ungmennum:

ÉG ÆTLA AÐ BÍÐA …
– því ég vil ekki láta vímuefni eyðileggja öll mín framtíðarplön
– vegna þess að það er ekki hægt að spóla til baka ef illa fer
– vegna þess að mig langar að hitta fólk án þess að þurfa ða hugsa um lyktina út úr mér eða hvort eitthvað sjáist í augunum og svoleiðis
– vegna þess að mig mangar að vita hvernig ég virka í þessum heimi
– vegna þess ða ég er á kafi í tónlist og mér finnst ekki til betri tilfininng en að syngja með öllum líkamanum og finna fyrir hverri gfrumu, ef þið skiljið hvað ég á við
– vegna þess að ég er ástfanginn
– vegna þess að mig langar til að lifa heil
– því ég er nokkuð forvitinn um framtíðina
– því næstu ár gera mig að því sem ég verð, kannski alla ævi
– vegna þess að ég er ekki tilbúin að breytast í eitthvað annað en sjálfa mig
– bara vegna þess að þannig get ég alltaf vitað hvað er að gerast og hverjir eru vinir mínir
– því ég vil læra á sjálfa mig og geta sent öðrum rétt skilaboð, sérstaklega strákum auðvitað
– af því að ég vil geta sagt satt og sleppt öllu stressi
– því ég er verulega einstakur og vil að fólk læri smám saman að meta mig fyrir það sem ég er
– vegna þess að mig langar að fatta sjálfan mig fyrst
– vegna þess að ég ætla mér að verða besta mögulega útgáfan af mér
– vegna þess að þegar ég er ég finnst mér ég geta allt, og svoleiðis vil ég vera, á mínu svæði einhvern veginn
– maður þarf að hafa á hreinu hvað maður er að gera til að geta gert það betur næst
– af þvi að þegar ég les get ég upplifað allt sem ég vil og samt verið ég sjálf allan tímann
– af því að það er nógu flókið að vera unglingur þó maður bæti ekki ruglinu við líka
– út af því að ég er alltaf að taka myndir og finnst það bara málið
– vegna þess að vinur bróður míns dó út af töflum sem hann tók og hann var samt nýbúinn að segja mér að hann væri með allt á hreinu
– af því að ég ætla að kynnast mér eins og ég er
– því ég er of upptekin við að skrifa bloggið mitt
– vegna þess að árin fram að tvítugu er maður í bakarofninum og eins gott að taka ekki sénsinn á að opna of snemma því þá gæti allt farið í klessu

Myndbönd
Framleidd voru 6 myndbönd með ungmennum sem fluttu með skemmtilegum hætti hvers vegna það er svo mikilvægt að bíða með alla neyslu, eða sleppa henni alveg – að þeirra mati.

EGbida1
EGpers0