Markaðssetning vímuefna


Markaðssetning tóbaks og áfengis er iðnaður á heimsvísu en Ísland býr við þá sérstöðu að hér hafa auglýsingar á tóbaki og áfengi verið bannaðar með lögum frá 1928 og í nýjustu áfengislögunum 20. grein er algjört bann lagt við áfengisauglýsingum í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Þar sem áfengi og tóbak eru lögleg vímuefni hér, eins og í nágrannalöndum okkar, hefur markaðssetning þessara efna verið stór partur af markaðs- og fjölmiðlaumhverfi þessara landa og því skilað sér með beinum og óbeinum hætti gegnum þessi fjölmiðlafyrirtæki í formi beinna og óbeinna auglýsinga og kynninga. Áfengisframleiðendur leita allra leiða til að koma vörum sínu á framfæri þrátt fyrir auglýsingarnabannið og hafa óbeinar auglýsingaherferðir því orðið hluti af okkar fjölmiðlamenningu hér á landi síðustu misserin, auglýsingar á óáfengum drykkjum með sama útlit og áfengar orðið hvað mest áberandi og sú leið sem áfengisiðnaðurinn hefur nota til að fara kringum auglýsingabannið hér á landi.

Í öðrum löndum veltir áfengisiðnaðurinn milljörðum króna í að auglýsa vörur sínar og lífstílinn þeim tengdum á meðan auglýsingabannið hér á landi hefur komið í veg fyrir stanslaust auglýsingaflæði. Rannsóknir sína einnig að þar sem reglur og lög um markaðsetningu áfengis eru stífari mælist tjón og vandi vegna áfengisneyslunnar mun minni, áfengisneyslan er minni í þeim löndum sem takmarka eða banna áfengisauglýsingar.

En áhrif áfengisauglýsinga á lýðheilsu eru viðurkennd og hér á landi eru börn og ungmenni sérlega varin fyrir auglýsingum sem geta aukið ásókn þeirra í áhættuhegðun eins og neysla fíkniefna er. Þrátt fyrir viðleitni löggjafans til að takmarka flæði auglýsinga þá rignir á hverju ári inn miklu magni af alls kyns kynningar- og auglýsingaefni á flest öllum miðlum landsins, prent og ljósvakamiðlum auk þess sem veraldarvefurinn streymir nær óheftu auglýsingaefni til þeirra sem hafa aðgang að tölvu. Við ramman reip er að draga í viðleitni, einkum frjálsra félagasamtaka, sem vilja vekja athygli á þessum aðferðum áfengisfyrirtækja og brotum á íslenskum lögum.


Sjá FB síðu Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum