Vímuakstur

Ölvunar- og vímuakstur

Samkvæmt umferðarlögum skal ökumaður vera líkamlega og andlega fær um að stjórna því ökutæki sem hann fer með. Enginn má stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega. 

Í umferðarlögum er kveðið á um að ökumaður megi ekki neyta áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna við stjórn vélknúins ökutækis. Ennfremur að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknunu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru.

Hvað þarf vínandamagn í blóði að vera mikið til að ökumaður teljist ekki geta stjórnað ökutæki örugglega?
Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,20 prómillum, en er minna en 1,2 prómill, eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrömmum í lítra lofts en er minna en 0,60 milligrömm eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt vínandamagn í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki getað stjórnað ökutæki örugglega.

Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 1,2 prómillum eða meira eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,6 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.

Hve langan tíma tekur fyrir vínanda að hverfa úr blóðinu?
Ýmsir þættir hafa áhrif á hversu lengi vínandi er að hverfa úr blóðinu svo sem magn þess áfengis sem innbyrt er og líkamsbygging einstaklingsins. Þess vegna er ekki hægt að setja algild tímamörk. Lifrin minnkar vínandann í blóðinu um 0,15 prómill á klukkustund og meðan á því stendur er best að hvílast vel.

Ekki er hægt að flýta fyrir niðurbroti vínanda í blóði með neinum hætti en margir virðast halda að svo sé. Kaffidrykkja, köld sturta, líkamsæfingar eða annað slíkt leiða ekki til þess að það renni hraðar af fólki.

Enn fremur er bent á að þeir sem þjást af eftirköstum drykkju svo sem höfuðverki, sleni og þreytu eru ekki vel upplagðir til aksturs. 

Fíkniefnið metamfetamín var bætt við töflu fyrir viðurlög vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.

Vínandamagn og refsingar
1,20 – 1,50‰ eða útöndunarlofti 0,60 – 0,75 mg/l.
Svipting ökuréttar í 1 ár og 6 mánuði og 180.000 kr. sekt.

2,01 – 2,50‰ eða útöndunarlofti 1,01 -1,25 mg/l.
Svipting ökuréttar í 3 ár og 240.000 kr. sekt.

2,51‰ eða meira eða útöndunarlofti 1,26 mg/l eða meira.
Svipting ökuréttar í 3 ár og 6 mánuði og 270.000 kr. sekt.