Amfetamin – MDMA – e-pillla
Amfetamín hefur verið notað við lækningar frá því um 1935 en var fyrst framleitt árið 1887. Amfetamín líkist boðefnunum noradrenalíni og dópamíni að gerð og var áður notað við alls konar geðdeyfð, athafna- og framkvæmdaleysi, við hugstreitu og megrun. Nú telst notkun lyfisins við áðurnefnd tækifæri vafasöm. Dregið hefur stórlega úr notkun amfetamíns og skyldra lyfja bæði vegna hættu á ávana og fíkn og tilkomu annarra lyfja. Ein helsta ábending á notkun þessara lyfja er ofvirkni og athyglisbrestur í börnum. Er þá frekast notað metylfenídat sem er skylt amfetamín að gerð og verkunum. Metylfenídat er notað í litlum skömmtum og virðist lítil hætta vera á ávana og fíkn í lyfið í þessum börnum. Við þetta sjúkdómsástand er hrörnun eða vanþroski í viðtækjum fyrir dópamín í vissum hlutum heilans.

Verkun amfetamíns í miðtaugakerfinu skýrist sennilega af losun á þremur boðefnum úr taugungum, þ.e. noradrenalíni, dópamíni og serótóníni. Örvun af völdum amfetamíns eftir litla skammta er talin vera vegna losunar á noradrenalíni. Ávani og fíkn í amfetamín er sett í samband við losun á dópamíni. Geðveikikennd viðbrögð eftir stóra skammta eða langvarandi töku eru talin stafa af losun á serótóníni ásamt dópamíni.

Verkun amfetamíns í venjulegum skömmtum til inntöku (10-30 mg) er langmest áberandi ef þreyttir einstaklingar eiga í hlut. Hjá þeim getur amfetamín eflt vökuvitund til muna og seinkað mjög svefni. Amfetamín dregur úr matarlyst, örvar öndun og frumlífsviðbrögð (öndunarstarfsemi, starfsemi hjarta og blóðrásar) í heilastofni og einkum ef þau eru slævð fyrir. Ef óvanir taka stærri skammta (20-30 mg upp í 50-100 mg) veldur það óróa, svima, kvíða og svefnleysi, sem venjulega skyggir á vellíðunarkennd. Sömuleiðis ber á óþægilegum einkennum frá hjarta- og æðakerfi og meltingarfærum. Á þessu stigi getur neytandinn fundið fyrir rangskynjunum (venjulega heyrnarskynjanir) og ranghugmyndum (ofsóknarkennd) og kann að hegða sér afbrigðilega í samræmi við það (æðisgengnar athafnir svo sem að vinna sjálfum sér eða öðrum tjón). Við langvarandi notkun getur þetta ástand tekið á sig mynd geðklofa. Það hverfur þó alltaf eða nær alltaf þegar töku amfetamíns er hætt.

Mikið þol myndast að jafnaði gegn flestum verkunum amfetamíns, m.a. gegn verkun á matarlyst, hjarta og æðar, banvænni verkun og vellíðunarkennd. Fráhvarfseinkenni eftir amfetamín eru vel þekkt svo sem þreyta, langvarandi og órólegur svefn, óværð, mikið hungur og deyfð.

Alvarleg amfetamínfíkn er undantekningarlítið bundin við að sprauta efninu í æð. Amfetamínfíklar lýsa vellíðan, ekki sjaldan á svipaðan hátt og heróínfíklar heróínvímu, sem unaðslegri kennd á borð við kynferðislega fullnægingu. Gallinn er hins vegar sá að með áframhaldandi notkun verður mun meira þol gegn vellíðunarkennd og bilið í geðveikikennt ástand og hegðun styttist. Geðveikikennt ástand er hins vegar fátítt eftir jafnvel langvarandi töku morfíns eða heróíns. Amfetamínfíklar eru þess vegna oft verri viðureignar en heróínfíklar. Í stórum skömmtum og einkum við langvarandi töku minna áhrif amfetamíns að nokkru leyti á verkun lysergíðs (LSD).

Amfetamínfíkn er orðin tiltölulega algeng hér á landi. Svo virðist sem lítt hafi verið þekkt hér að menn sprautuðu amfetamíni í æð sér fyrir 1983.

Ýmis ávana- og fíkniefni hafa verið framleidd út frá amfetamíni eða metamfetamíni en hafa blandaða verkun og líkjast lysergíði að nokkru.

Hvað er e-pilla?
E-pillan er amfetamínafbrigði sem virkar líkt og amfetamín en hefur um leið áhrif á skynjun neytandans og víman verður því öðruvísi en af amfetamíni. Hún hefur fyrst og fremst verið notuð og markaðsett fyrir hinn ólöglega vímuefnamarkað sem ofskynjunarefni líkt og LSD. Efnafræðiheiti e-pillunnar er dimethylenedioxymethamphetamine. Það var fyrst markaðsett undir heitinu „Ecstasy“ en hefur verið kallað hinum ýmsu nöfnum í vímuefnaheiminum eins og: e-pilla, alsæla, MDMA, Adam, XTC, M&M eða Rave.

Þó að efnið sé einfalt í framleiðslu er framleiðsla þess öll ólög og ekkert eftirlit er með henni og dreifingunni og sölunni. Það er því hægt að selja fólki hvað sem er undir því yfirskini að á ferðinni sé MDMA. Fram til þessa virðast efnin nokkuð hrein og eru slegin í töflur sem hafa merkilega nákvæma skammta sem eru um 100 mg. Efnið hefur líka verið selt í hylkjum og duftformi. Auðvelt er að sprauta því í æð. Venjulega taka neytendurnir eina til tvær töflur og nota því 60 til 250 mg í hvert sinn.Helmingunartími er átta klukkustundir og víma eftir einn skammt stendur í fjórar til sex klukkustundir.

Uppruni
E-pillan varð til árið 1914 í þeim tilgangi að draga úr matarlyst en var aldrei sett á markað í því skyni. Á sjöunda áratugnum vöknuðu hugmyndir um að nota mætti efnið til geðlækninga. Gildi þess sem lækningalyfs var aldrei metið hlutlægt og árið 1985 var e-taflan sett á lista yfir ólöglega vímugjafa í Bandaríkjunum vegna óvæntra dauðsfalla sem hlutust af neyslu hennar.
Á níunda áratugnum var e-pillan vel þekkt í Bandaríkjunum. Efnið komst þó ekki í sviðsljósið almennilega fyrr en um 1990 þegar fjöldi unglinga í Bretlandi og Þýskalandi fóru að hópa sig saman, taka efnið inn og dansa maraþondans undir áhrifum þess í stórum hópum. Fyrstu dauðsföllin sem sagt var frá í Bretlandi vegna efnisins kom svo e-pillunni í miðpunkt umræðunnar. Efnið barst til Íslands um 1995 og síðan þá hefur mikill fjöldi íslenskra unglinga notað efnið.

Hvað gerist þegar e-pillan er tekin inn?
Eins og amfetamín losar MDMA dopamín, serótónín og noradrenalín úr skaftendum tauga og fyllir neytandann aukinni orku og hreyfiþörf. Með því að losa dópamín í verðlaunastöð heilans veldur það sæluvímu. Það örvar semjuhluta sjálfráða taugakerfisins og veldur þannig hækkuðum blóðþrýstingi, hröðum hjartslætti, hraðari öndun og munnþurrki sem er í réttu hlutfalli við stærð skammtanna. Eins og LSD hefur það áhrif á serótónínviðtaka af gerð 2 og veldur þannig breyttri skynjun en sjaldnast hreinum ofskynjunum. Efnið losar serótónín úr skaftendum og eyðir serótónínbirgðum úr taugaendum í framheila auk þess að eyðileggja varanlega serótóníntaugaenda í heila tilraunadýra og manna.

Væntingar
Það virðist sem sumt ungt fólk sækist eftir að auka og lengja vellíðun með því að neyta e-pillu, flýja hið daglega líf og finna fyrir frelsi. Einnig til þess að auka tilfinninganæmi og bæta þannig samskipti við annað fólk.
Sú saga fór af efninu áður fyrr að það efldi innsæi og sjálfsþekkingu. Sumir héldu að efnið væri ástarlyf („Aphrodisiac“). Það er þó misskilningur því að efnið eykur ekki áhuga á kynlífi eða næmi, þvert á móti minnkar það kyngetu og truflar ris og sáðlát karla. Neytandanum finnst að vísu að hann eigi auðveldara með samskipti og finnur fyrir meiri samkennd og samhug með öðrum.

Hver eru áhrifin?
Venjulegur skammtur til að valda vímu er um 100 mg. Að taka inn stærri skammt eykur lítið sem ekkert á vímuna en eykur hættu á óþægindum, hliðarverkunum og eitrunum. Þar sem þol gegn vímunni myndast fljótar en gegn ýmsum hliðarverkunum geta vaxandi skammtar valdið alvarlegum einkennum.
Efnið hefur mörg sömu áhrif og amfetamín, notandinn finnur meiri orku, tilfinningar eru ýktar, hömlur minnka og sjálfstjórn hverfur. E-pillan breytir tilfinningum og neytandinn finnur til aukins sjálfstrausts og telur sig tilbúinn í hvað sem er.
Flestir finna fyrir lystarleysi og ógleði á fyrstu mínútunum. Svimi sækir að og kjálkarnir fara að skjálfa sumir gnísta tönnum. Í byrjun finna flestir fyrir kvíðatilfinningu sem getur breyst í ofsahræðslu. Í vímunni lýsir fólk því að það finni fyrir aukinni samkennd, samúð og skilningi og aukinni þörf fyrir að hreyfa sig og dansa. Efnið getur einnig valdið óþægilegum ofskynjunum þar sem neytandinn sér myndir, heyrir hljóð og finnur lykt sem í reynd er ekki til staðar. Óþægindin geta verið ótti, herpingur í kjálka, ógleði, höfuðverkur, svitaköst, kláði, óróleiki og hjartsláttartruflanir. Einnig er hætta á endursýn (flashcack) mörgum mánuðum síðar. Í stórum skömmtum koma fram ofsjónir, óróleiki, hiti og ofsahræðsla.
Eftir vímuna kvarta margir um að vera ruglaðir kvíðnir og þunglyndir. Þessi líðan varir í nokkrar klukkustundir upp í nokkra daga eftir neyslu í eitt skipti. Þol myndast fljótt gegn LSD-verkun efnisins og því þýðir ekki aðnota efnið dag eftir dag til að fá breytingar á skynjuninni. Amfetamínverkunin helst þó að þol myndist einnig við henni. Þeir fáu sem nota efnið oft og reglulega eru því í mikilli hættu að fá eitranir og hættulega fylgikvilla því þeir nota efnið eðlilega í stærri skömmtum en hinir.
Þegar áhrifin hverfa er neytandinn örþreyttur og í slæmu skapi. Hætta er á geðröskun og langvinnu alvarlegu þunglyndi þar sem allt virðist ,,svart“. Neyslan getur leitt til varanlegs heilaskaða og skemmda á nýrum, hjarta og lifur. Í stórum skömmtum koma fram ofsjónir, óróleiki, hiti og ofsahræðsla. Þar sem þol gegn vímunni myndast fljótar en gegn ýmsum hliðarverkunum geta vaxandi skammtar valdið alvarlegum einkennum.
Fráhvarfseinkenni eftir reglulega neyslu er lík og fráhvarfseinkenni amfetamínfíknar, aðallega langvarandi þreyta, vöðvaverkir, svefnleysi, höfuðverkir og svimi.

Hver er hættan?
E-taflan er sérstaklega varasöm því hún virðist geta valdið dauðsföllum við litla skammta. Þannig getur ein tafla dregið mann til dauða fyrirvaralaust. Þetta er að vísu sjaldgæft. Auk þessa getur stór skammtur auðvitað verið banvænn og hættan vex séu menn veikir fyrir eða noti um leið önnur vímuefni eins og áfengi.
Sumir neytendur e-töflunnar halda að með því að gera ákveðnar varúðarráðstafanir þá sé óhætt að neyta hennar, t.d. með því að ganga úr skugga um efnasamsetningu hennar, hvílast og drekka nógu mikið af vökva til þess að forðast hitaslag. Því miður hefur e-taflan reynst mun hættulegri en þessir neytendur halda og ekki eru öll kurl komin til grafar í því sambandi. Neysla e-töflunnar hefur leitt til alvarlegra veikinda og jafnvel dauðsfalla. Það er ekki að ástæðulausu að Þorkell Jóhannesson, prófessor í lyfjafræði og eiturefnafræði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að MDMA (e-taflan) sé ,,vafasamasti, ef ekki langvafasamasti vímugjafi, sem skotið hefur upp kollinum á fíkniefnamarkaði hér á landi“.

Heilsuveilir í sérstakri hættu
Stórir skammtar valda hröðum hjartslætti og hækkuðum blóðþrýstingi. MDMA getur því valdið hjartsláttartruflunum hjá þeim sem eru veikir fyrir – hafa dulda eða þekkta hjartasjúkdóma sem eru áunnir eða meðfæddir. Þeir sem eru með ofstarfsemi í skjaldkirtli eru líka í hættu. Dauðsföll hafa orðið vegna þessa. Heilablóðfall hefur líka verið rakið til e-pilluneyslu.

Skyndidauði og heilaskemmdir
E-pillan getur valdið skyndidauða vegna eitrunar. Nú þykir sannað að yfir 100 einstaklingar hafi látist af völdum efnisins á síðustu fimm árum. Það þykir sannað að e-pillan getur valdið heilaskemmdum við tiltölulega litla notkun. Skemmdirnar koma þá fram sem varanlegt þunglyndi eða kvíði. E-pillan getur einnig valdið skyndilegu og svæsnu þunglyndi í neyslunni og rétt eftir hana og svipar að þessu leyti til LSD.

Eitranir
E-taflan getur valdið eitrun, jafnvel í litlu magni. Eitrun af völdum e-töflunnar er lífshættuleg, henni fylgir hár hiti, innvortis blæðingar, nýrun gefa sig og þetta getur leitt til dauða. Ekki nægir að drekka mikið vatn því afleiðingar neyslunnar eru alvarlegir skaðar þar sem vatn hjálpar ekki til. Dauðsföll hafa orðið af völdum e-pilunnar, jafnvel af litlum skammti (einni töflu). Við minnsta grun um eitrun skal strax leita til læknis eða á bráðavakt.

Vanabinding
Notkun e-pillunnar er venjulega samofin annarri vímuefnaneyslu. Flestir sem taka efnið inn hafa áður notað amfetamín og kannabisefni. Efnið er notað líkt og önnur ofskynjunarefni stöku sinnum því að þol myndast strax og því stórhættulegt að nota efnið daglega. Sumir neytendur segjast þó taka efnið vikulega. Líkaminn venst á efnið og smátt og smátt þarf aukið magn til að ná sömu virkni og í fyrstu. Við það aukast enn líkur á líkamlegum og andlegum skaða. Ekki er vitað með vissu hversu fljótt vanabindandi fíkn myndast.
Efnið er því sjaldnast notað eitt og sér í langan tíma því að ef vímuefnaneyslan verður regluleg breyta neytendurnir um efni og hér á Íslandi velja þeir oftast amfetamín. Þannig er neysla e-pillu gjarnan tímabundin tilraunaneysla hjá neytandanum og e-pilluneytendur sem koma til meðferðar gera það fyrst og fremst sem amfetamínfíklar. Neyslan virðis nú um sinn vera bundin við ákveðnar skemmtanir og neytandinn er sjaldnast einn við neysluna.

Eitt kvöld, jafnvel ein tafla, getur leitt til ævarandi skaða
E-pilluneysla getur haft í för með sér afleiðingar sem ná langt út fyrir eina kvöldstund. Þessar afleiðingar geta bæði verið geðtruflanir, líkamlegir fylgikvillar sem koma vegna neyslunnar eða heilaskaðar. Til viðbótar geta verið fylgikvillar eins og heilablóðfall og hjartsláttartruflanir sem geta haft mismiklar og alvarlegar afleiðingar. Geðtruflanir sem geta komið upp eru þunglyndi, kvíði og sturlun oftast ofsóknarsturlun. Þessi einkenni geta oft varað í vikur eftir neysluna og geta komið eftir einn skammt.