FUNI stofnað
24. apríl 2017
Sagan
FUNI er félag áhugafólks um forvarnir sem stofnað var 2017 um vímuvarnir og bætta lýðheilsu. Aðdragandinn er langur, saga og rætur þessa félags ná alveg aftur til áranna 1985 – 1993.
1985 – 1988
Starfsgrunnur FUNA er sóttur til áranna sem forvarnastarf stóð á tímamótum og þjóðin var að vakna til vitundar um mikilvægi skipulagðra forvarna út frá möguleikum heimilanna og skólakerfisins. Leiðandi í þeirri nálgun voru frjáls félagasamtök og var fólk á stofnfundi FUNA þar m.a. í fararbroddi. Auk þessa jókst samstarf stjórnvalda, lögreglu og forvarnasamtaka hröðum skrefum.
1988 – 1993
Félagsfólk FUNA tók virkann þátt í því að stofna til samstarfs í forvarnamálum þar sem sýnt þótti að vímuefnaneysla barna var orðin áberandi og færðist æ neðar í aldurshópum, ma. með undirbúningi að stofnun Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum FRÆ, sem átti að verða miðstöð samstarfs í forvarnastarfi.
1993
Fræðslumiðstöð í fíknivörnum FRÆ er stofnuð 5. nóvember 1993 að áeggjan tveggja forvarnasamtaka, annars vegar Íslenskra ungtemplara ÍUT (1958) og hins vegar Vímulausrar æsku VÆ (1986). Framkvæmdastjórar þessara samtaka, Guðni Björnsson og Elísa Wíum, voru samstíga um að taka þetta framfaraskref í málaflokknum og formaður Ungtemplara Ingibergur Jóhannsson og Bogi Arnar Finnbogason, formaður VÆ, undirrituðu samstarfssamning í júní 1993. Miðstöðin var fyrst til húsa í húsnæði Ungtemplara við Grensásveg 16 í Reykjavík og hófst starfið formlega 5. nóvember.
1994 – 1996
Fyrsta átaksverkni FRÆ var Stöðvum unglingadrykkju en hugmyndin að því landsátaki kom frá framkvæmdastjóra Vímulausrar æsku en um 80 aðilar aðrir stóðu að stofnun þess, m.a. sveitarfélög, forvarnasamtök, skólar, ráðuneyti, kirkjan, lögreglan, félagshreyfingar ungmenna og íþróttahreyfinga. Takturinn var sleginn; samtakamátturinn skilaði mestum árangri.
1997 – 2002
Þjóðin var vakin og stjórnmálafólk tók upp merki forvarna sem aldrei fyrr og ræst var til þjóðarátaks í vímuvörnum undir merkjum stjórnvalda og Ísland án eiturlyfja 2002 tók við keflinu af Stöðvum unglingadrykkju verkefninu.
Áfram unnu félagshreyfingar að sínum verkefnum, foreldrasamtök og forvarnaverkefni þeirra fengu byr undir báða vængi þegar árangur starfsins skilaði sér í minnkandi vímuefnaneyslu ungmenna og birtist í rannsóknum strax um aldamótin. Sú þróun hélt áfram meðal barna þótt heildarneysla áfengis meðal fullorðinna héldi áfram að aukast.
2003 – 2016
Á þessum árum urðu talsverðar breytingar á skipan mála í afskiptum okkar af vímuvörnum meðal barna og forvarnastarfi. Stjórnvöld lögðu niður eldri stofnanir eins og Áfengisvarnaráð (1954-1999) en setti í staðin á stofn Lýðheilsustöð (2003) sem síðar gekk undir hatt Embættis landslæknis (2007) og er starfið þar síðan. Á sama tíma verða til samstarfsverkefni í forvarnamálum sem félagasamtök leiddu til að byrja með, verkefni eins og SAMAN hópurinn, Náum áttum, SAFF, Baragras? og Vika 43.
Stofnað 2017
Formlegur stofnfundur FUNA, félags um forvarnir, er 24. apríl 2017 en baklandið byggðist upp árin 1984–2016 en Guðni Björnsson, einn stofnenda og verkefnastjóra FRÆ, var hvatamaður að tilurð FUNA og síðar Forvarnamiðstöðvar (FOMS). Mörg verkefna í FOMS sem unnin voru í FRÆ hafa því haldið áfram frá stofnun FUNA og til að leggja þau ekki alveg af töldu stofnendur FUNA farsælast að halda til haga góðum verkum og árangursríku starfi þótt breyting hafi orðið á starfsfyrirkomulaginu eftir 2016.