Kannabis

TeiknKannaLit21















Kannabis (fræðiheiti: Cannabis) er ættkvísl dulfrævinga en þrjár helstu tegundir hennar eru: Cannabis indica (indverskur hampur), Cannabis sativa og Cannabis ruderalis. Áður fyrr kölluðust afurðir plöntunnar einu nafni hampur, en í nútímamerkingu er það notað yfir þær plöntur sem gefa af sér aðrar afurðir en vímugjafa.

Plöntunnar er neytt sem vímugjafa á ýmsa vegu. Algengast er að óunnins brums sé neytt, að kristöllum plöntunnar sé þjappað saman til að búa til hass og úr því er einnig unnin hassolía. Hampur er planta sem hefur verið ræktuð í nær 5000 ár. Plantan á uppruna sinn að rekja til Asíu, en er í dag ræktuð um allan heim. Í stöngli plöntunnar eru langar og grófar trefjar sem nýtast vel til iðnaðar. Úr hampi hafa lengi verið unnin m.a. reipi og vefnaðarvörur. Í háblöðum og bikarblöðum kvenplantna myndast efni sem nefnast kannabínóíðar. Mest rannsökuðu kannabínóíðarnir eru kannabíndíól (CBL) og kannabínól (CBN), sem hafa ekki hugbreytandi virkni, og svo tetrahýdrókannabínól (THC) sem hefur slíka virkni. Fundist hafa a.m.k. 85 kannabínóíðar, en þessi efnasambönd eru mjög mismunandi frá einni plöntu til annarrar.

Virkni THC
THC verkar aðallega á miðtaugakerfið, þ.e. heila og mænu. Meðal áhrifa sem koma þar fram er:
• skerðing á skammtímaminni
• skerðing á samhæfingu hreyfingar
• verkjastilling
• aukin matarlyst
• lækkaður líkamshiti

Áhrif sem verða í úttaugakerfi, þ.e. utan heila og mænu er:
• aukin hjartsláttartíðni
• víkkun berkja
• æðavíkkun
• lækkaður augnþrýstingur

Viðtakar fyrir kannabínóíða
Tvennskonar viðtakar finnast fyrir kannabínóíða. CB1 er annar þeirra og finnst aðallega í miðtaugakerfinu og þá í svipuðu mæli og viðtakar fyrir GABA og Glútamat.
Dreifing CB1 er ekki jöfn um miðtaugakerfið heldur finnast þeir aðallega í dreka, litla heila og undirstúku sem skýrir áhrifin sem koma fram, þ.e. skerðing á skammtímaminni (vegna áhrifa á dreka), verri samhæfingar hreyfingar (vegna hnykils) og aukinnar matarlystar og lækkaðs líkamshita (vegna áhrifa á undirstúku).
CB2 viðtakarnir finnast mestmegnis í ónæmiskerfinu, þ.e. í milta, hálskirtlum, hóstarkirtlum og hvítfrumum í blóði. Kannabínóíðar hafa þ.a.l. hamlandi áhrif á ónæmiskerfið.

Möguleg læknisfræðileg áhrif kannabis
Verið er að kanna áhrif kannabis á ýmsa kvilla. Talið er að það hafi jákvæð áhrif hjá þeim sem gangast undir meðferð við krabbameini með því að minnka ógleði þeirra. Það gæti einnig hjálpað til við að minnka þrýsting í augum þeirra sem þjást af gláku. Að auki er það talið vinna gegn asmaköstum og draga úr einkennum sumra taugasjúkdóma. Rannsóknir benda til þess að kannabis geti einnig hjálpað til við að lina sársauka sem fylgir nokkrum sjúkdómum, s.s. þeim sem tengjast mænuskaða. Rannsóknir beinast nú að því að kanna virkni þess sem verkjastillandi lyfs og að þróa kannabis sem ekki hefur í för með sér þá vímu sem raunin er með kannabisefni.

Saga kannabisefna
Talið er að hampafurðir hafi verið notaðar í a.m.k. 5000 ár og eru elstu heimildir um það frá Kína. Textar sem fundist hafa í Kína benda til þess að það hafi verið notað sem lyf í Asíu til meðferðar við fjölmörgum sjúkdómum. Á Indlandi tengdist kannabis gyðjunni Shiva. Í Evrópu hefur hampur bæði verið notaður til iðnaðar og í lækningaskyni. Í prússneskum texta frá því um árið 1350 er minnst á hamp og hann kallaður knapis (af kannabis). Hampur var einnig notaður í drykkjarföng og í Þýskalandi eru enn þann dag í dag til barir sem bjóða upp á hampbjór og hampvín. Þessi bjór og vín innihalda þó ekki kannabínóíða. Í Bandaríkjunum var eitt sinn hægt að kaupa kannabisefni í verslunum, en notkun þeirra minnkaði með tilkomu annarra deyfilyfja á markaðinn. Á fjórða áratugi síðustu aldar var kannabis bannað með lögum í Bandaríkjunum. Talið er að djasskynslóðin hafi svo hafið kannabis upp til nýrra hæða í Bandaríkjunum um miðja tuttugustu öld. Að auki hefur kannabis verið notað í trúarlegum tilgangi, til að mynda meðal Rastafaritrúaðra á Jamaíku og Sadhúa á Indlandi.

Viðurlög við notkun kannabis og lög á heimsvísu Lög varðandi kannabis um heiminn.
Í byrjun síðustu aldar voru kannabisefni bönnuð með lögum víðast hvar í hinum vestræna heimi. Þau voru bönnuð í Bretlandi árið 1928 og sett á þau takmörk í Bandaríkjunum árið 1937. Þeim takmörkunum réð ekki hvað síst andstaða þeirra sem bjuggu til gerviefni sem kepptu við hampræktun. Bann við kannabis tekur oftast til ræktunar, eignar og dreifingar efnisins. Í Hollandi hefur lengi verið leyft að kaupa kannabisefni á sérstökum kaffihúsum og notkun efnisins er ekki ólögleg. Menn greinir hins vegar á um hvort þetta leyfi kyndi undir neyslu annarra efna enda telja sumir að kannabisneysla sé einfaldlega undanfari neyslu annarra vímuefna. Þrátt fyrir skiptar skoðanir hafa sum lönd nú leyft mönnum að eiga kannabis til einkanota (oft án þess að leyfa sölu þess) og er hugsunin ekki hvað síst að menn geti notað það í lækningaskyni. Meðal þessara landa eru Spánn, Portúgal og Ástralía. Á Englandi eru menn ekki lengur handteknir fyrir að eiga lítið magn af kannabis þar sem lögreglan telur sig ná betri árangri með því að einbeita sér að sterkari efnum. Þrátt fyrir það geta menn búist við sektum ef lögregla finnur kannabisefni á þeim. Kannabis er ólöglegt í mörgum löndum en afglæpavæðing smárra skammta hefur þó víða átt sér stað.
Árið 2017 voru kannabislög væg í löndum eins og Ástralíu, Bangladess, Kambódíu, Kanada, Síle, Kólumbíu, Kosta Ríka, Tékklandi, Þýsklalandi, Indland, Jamaíka, Mexíkó, Hollandi, Portúgal, Spáni, Suður-Afríku og Úrúgvæ, ásamt einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Ströngustu lögin eru í Kína, Egyptalandi, Frakklandi, Indónesíu, Japan, Malasíu, Nígeríu, Noregi, Filippseyjum, Póllandi, Sádí-Arabíu, Singapúr, Suður-Kóreu, Tælandi, Tyrklandi, Úkraínu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Víetnam.

Ísland

Kannabis var fyrst bannað árið 1969. (Sjá Kannabis á Íslandi https://is.wikipedia.org/wiki/Kannabis_á_Íslandi)
Neysla á kannabis fer oftast þannig fram að hann er reyktur. Þess vegna er eðlilegt að umfjöllun um skaðsemi kannabis miðist við það heilsutjón, sem kann að leiða af kannabisreykingum. Í kannabisplöntunni er urmull af efnum, sem berast út í reykinn þegar plantan er reykt. Sum þeirra ummyndast og breytast í ný efnasambönd. Mörg efnanna í kannabisreyknum finnast einnig í tóbaksreyk. Má þar nefna fjölhringliða kolefnissambönd, nituroxíð, kolmónoxíð og tjöru. Kannabisreykingar geta því valdið flestum þeim sjúkdómum, sem tengdir eru tóbaksreykingum, svo sem lungnasjúkdómum, krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum. Kannabisreykurinn er að því leyti varasamari en tóbaksreykurinn að hann inniheldur að minnsta kosti þrefalt meira magn af þeim efnum, sem talin eru skaðlegust í tóbaksreyk Þekking manna á heilsutjóni af völdum kannabisreykinga byggist að miklu leyti á rannsóknum á fólki, sem reykt hefur kannabis um lengri eða skemmri tíma. Þar eð kannabisneysla tengist oft notkun annarra vímuefna og ýmiss konar óheilbrigðu líferni, getur eðli málsins samkvæmt oft verið erfitt að greina milli heilsutjóns af völdum kannabis annars vegar og hins vegar tjóns af öðrum orsökum. Dýratilraunir sem eru sambærilegar við kannabisreykingar hafa ekki verið gerðar og verða því framangreindar rannsóknir á kannabisneytendum að nægja. Þegar fjallað er um skaðsemi kannabis er oft vísað til fjölmargra rannsókna, sem gerðar hafa verið á tetrahýdrókannabínóli (THC), en það er virkasta efni kannabisplöntunnar og það sem framkallar vímu við reykingar. Gera verður ráð fyrir því að kannabisreykurinn hafi allar þær eiturverkanir, sem tetrahýdrókannabínól hefur. Hitt vill samt oft gleymast að kannabisreykurinn inniheldur fjölmörg önnur efni, sem komin eru úr kannabisplöntunni, til viðbótar við þau sem áður voru nefnd og finnast einnig í tóbaksreyk.

Eiturverkanir þessara efna eru að mestu óþekktar. Af þessari ástæðu er ekki hægt að draga ályktanir um skaðsemi kannabis út frá rannsóknum á tetrahýdrókannabínóli eingöngu. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu verkunum kannabis, sem talist geta skaðlegar, hvort sem þær stafa af tetrahýdrókannabínóli eða öðrum efnum, sem kunna að finnast í kannabis. Verkun á miðtaugakerfi: Kannabis veldur slævingu á miðtaugakerfinu og skertri samhæfingu hreyfinga, sem dregur úr hæfni manna til þess að leysa af hendi vandasöm verkefni, eins og til dæmis að stjórna bifreið. Rangskynjanir koma fyrir og einbeiting og túlkun atburðarásar ruglast. Skammtímaminni hrakar og námsgeta skerðist af þeim sökum.
Vegna þess hve tetrahýdrókannabínól er lengi að hverfa úr líkamanum vara þessi áhrif miklu lengur en margir átta sig á. Við mikla kannabisneyslu getur komið fram geðveikikennt ástand, sem einkennist af rugli, ofskynjunum og ranghugmyndum. Þetta ástand getur varað dögum saman en gengur oftast til baka á innan við viku frá því að neyslu efnisins var hætt. Ekki hefur verið skorið úr um með vissu hvort kannabisneysla hafi varanleg áhrif á miðtaugakerfið þegar til langs tíma er litið. Ýmiss konar persónuleikaraskanir eru algengari hjá þeim sem hafa reykt kannabis lengi en hjá hinum, sem gera það ekki. Deilt er um hvort þetta sé raunveruleg afleiðing neyslunnar eða einkenni sem voru fyrir hjá neytandanum áður en hann hóf neysluna. Að lokum hefur verið sýnt fram á að þeim sem reykja kannabis virðist vera um sex sinnum hættara við að fá geðklofa en öðrum.

Verkun á hjarta- og æðakerfi:
Kannabis eykur hjartslátt í allt að 160 slög á mínútu og hækkar blóðþrýsting. Þetta getur verið óheppilegt fyrir þá sem haldnir eru hjartaveilu eða háum blóðþrýstingi. Verkun á öndunarfæri: Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem reykja kannabis þurfa oftar en aðrir að leita sér læknishjálpar vegna sýkinga og annarra sjúkdóma í öndunarfærum.

Verkun á ónæmiskerfið:
Tetrahýdrókannabínól veldur bælingu á ónæmiskerfinu. Þetta gæti dregið úr viðnámsþrótti kannabisneytenda gegn sýkingum.

Verkun á kynkirtla:
Rannsóknir hafa sýnt að kannabisneysla veldur truflunum á starfsemi kynkirtla, einkum í karlmönnum. Þannig dregur hún mjög úr framleiðslu testósteróns. Í dýratilraunum hefur komið í ljós að tetrahýdrókannabínól veldur rýrnun á eggjastokkum og eggjaleiðurum og getur valdið drepi í eggbúsfrumum.

Verkun á fóstur og afkvæmi:
Börn kvenna sem reykja kannabis á meðgöngu eru minni og léttari en önnur og í ljós hefur komið að þeim er einnig hættara við að fá hvítblæði.

Krabbamein:
Rannsóknir á kannabisneytendum sýna að þeim er hættara en öðrum við krabbameinum í munni, kjálka, tungu og lungum.

Eitranir:
Bráðar eitranir af völdum kannabis eru sjaldgæfar og verða helst við inntöku. Börn virðast viðkvæmari að þessu leyti en fullorðnir. Gera má ráð fyrir að 0,2 g af hassi geti valdið einkennum í börnum. Banvænar eitranir eru nánast óþekktar.

Misnotkun, ávani og fíkn:
Samkvæmt skilgreiningu National Institute of Drug Abuse (NIDA) í Bandaríkjunum veldur kannabis bæði ávana og fíkn. Hér á landi þurfa mörg hundruð ungmenni innan við tvítugt að leita sér aðstoðar á ári hverju vegna vímuefnaneyslu. Margir þeirra eru stórneytendur á kannabis. Þessar staðreyndir eru ef til vill besti mælikvarðinn sem við höfum á skaðsemi efnisins.

Hver er munurinn á kannabis, hassi, grasi og marijúana?
Tetrahýdrókannabínól (skammstafað THC) finnst í kannabisplöntunni, Cannabis sativa. Hún óx upphaflega í Mið-Asíu og er stundum nefnd hampjurt þar sem vinna má hamp úr basttrefjum í stofni hennar. Kannabisplantan vex víða um heim og er nú einkum ræktuð í Austurlöndum nær, svo sem Líbanon, Mið-Austurlöndum, til dæmis Íran, Pakistan, Afganistan og Nepal, í Marokkó í Norður-Afríku og Mexíkó og víðar í Ameríku. Tetrahýdrókannabínól er einn margra svokallaðra kannabínóíða sem finnast í kannabisplöntunni. Aðrir eru til dæmis kannabídíól, kannabínól og kannabíkrómen.

Í plöntunni hafa auk þess verið greind nokkur hundruð önnur efni sem einnig er að finna í tóbaksplöntunni, en þó ekki nikótín. Kannabisplantan er einær, tvíkynja planta, og getur orðið allt að 4-5 m á hæð. Kannabínóíðar finnast bæði í karl- og kvenplöntunni. Blöð plöntunnar eru stór, oft 5-7 fingruð, sagtennt og með löngum stilk. Blómin eru smá og grænleit og skipa sér í blaðaxlirnar. Á smáblöðum sem umlykja blómin og á blómsprotum og víðar eru kirtilhár sem skilja út kvoðu (e. harpix) sem hefur að geyma kannabínóíða.

Mismunandi hlutar kannabisplöntunnar.
Hugtakið kannabis er yfirleitt notað yfir alla hluta kannabisplöntunnar sem innihalda kannabínóíða, þar á meðal tetrahýdrókannabínól. Helstu flokkar eða tegundir kannabis eru hass og marijúana (stundum kallað gras) en einnig hassolía. Marijúana samanstendur af blómsprotum og laufi kannabisplantna sem eru þurrkuð og grófmulin. Hass er mulin, sigtuð, pressuð og stundum hreinsuð kvoða unnin úr kannabisplöntum. Magn kannabínóíða í hassi er mun meira en í marijúana. Hassolía er framleidd með því að láta lífræn leysiefni draga kannabínóíða úr hassi eða kannabisplöntum. Þannig verður þéttni eða magn tetrahýdrókannabínóls og annarra kannabínóíða meira en annars væri hægt að ná fram.Magn THC í marijúana er oft á bilinu 5-10 mg í einu grammi, í hassi er það um 30-70 mg/g og í hassolíu 50-120 mg/g. Marijúana er venjulega reykt í heimatilbúnum sígarettum. Hass er oftast reykt mulið í pípum eða öðrum reykingartólum, en er stundum blandað í te. Hassolía er oftast notuð þannig að nokkrir dropar eru settir í tóbak sem síðan er reykt. Kannabis er einnig stundum neytt við inntöku í ýmsum formum.

Kannabis hefur í árþúsundir víða um heim verið notað sem róandi lyf, svefnlyf, verkjadeyfandi lyf, flogaveikilyf og vímugjafi. Það var samt ekki fyrr en árið 1964 að sannað þótti að tetrahýdrókannabínól væri hið vímugefandi efni í kannabis. Enn er því svo farið að minna er vitað um verkanir tetrahýdrókannabínóls en flestra annarra vímugjafa.