Lyf og sprautur
Misnotkun vímuefna er stór áhrifaþáttur í ótímabærum veikindum og dauða í heiminum, skaðinn verður í gegnum bein eitrunaráhrif (td ofskammt opíóíða), vímuástand (til dæmis slys/ofbeldi), vegna þróunar fíknar (til dæmis geðraskanir) og að lokum vegna langvinnra fylgikvilla (til dæmis lifrarbólga C). Verst settir eru þeir sem nota vímuefni í æð, þessi hópur stríðir við alvarlegri heilbrigðisvandamál almennt og er með hæstu dánartíðnina.
Einstaklingar sem nota vímuefni eru líklegir til að leita á bráðamóttökur með sín vandamál frekar en til hefðbundinnar heilsugæslu. Þeir leita sér gjarnan seint aðstoðar og eiga erfitt með að fylgja ráðleggingum.
Víða hefur verið reynt að bregðast við þessu með því að aðlaga þjónustu betur að þessum hópi þannig er komin talsvert löng reynsla erlendis á rekstur sérhæfðrar heilsugæslu.
Á Íslandi hefur verið áætlað að einstaklingar sem nota vímuefni í æð séu allt að 700 á hverjum tíma. Margt bendir til að tíðnin hafi aukist á allra síðustu árum. Á undanförnum árum hefur grunnþjónusta við fólk í virkri sprautuneyslu aukist á Íslandi. Þannig hefur göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala til margra ára boðið upp á gott aðgengi og sveigjanleika í þjónustu við hópinn, sem hefur mælst vel fyrir. Í öðru lagi hefur verkefnið „Frú Ragnheiður“ á vegum Rauða krossins verið starfrækt með vaxandi þrótti frá árinu 2009. Þjónustan er veitt úr bíl sem hægt er að kalla til sex daga vikunnar. Undanfarin ár hefur aðkoma lækna og hjúkrunarfræðinga aukist en annars veitir fjölbreyttur hópur fagfólks almenna heilbrigðisþjónustu, fræðslu og sprautuþjónustu. Unnið er í anda skaðaminnkunar þar sem áhersla er á að minnka heilsufarslegan skaða án skilyrða um að þjónustuþeginn sé að stefna á að hætta notkun vímuefna. Í þriðja lagi hefur Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar verið starfrækt um nokkurt skeið, en tilgangur þess er að aðstoða heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
ÓPÍÓÍÐAR
Lyf sem innihalda ópíóíða er vandmeðfarin vegna aukaverkana og fíknar sem þau geta valdið. Einnig geta milliverkanir við önnur lyf valdið skaða. Búast má við að sumir ópíóíðar sem ávísað er hér á landi séu notaður vegna fíknar og af þeim sökum eftirsótt söluvara á svarta markaðnum. Þess vegna hafa heilbrigðisyfirvöld aukið eftirlit með notkun þessara lyfja og leitast við að takmarka notkun þeirra.
Undanfarna tvo áratugi hefur notkun lyfseðilsskyldra ópíóíða aukist mikið í mörgum vestrænum ríkjum, með samsvarandi fjölgun dauðsfalla vegna misnotkunar þessara lyfja. Bandaríkin hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á ópíóíðafaraldrinum (e. opioid epidemic). Þar hefur dauðsföllum sem rekja má til misnotkunar á lyfseðilsskyldum ópíóíðum fjölgað fjórfalt milli áranna 1999 og 2018 en á því tímabili urðu 232.000 dauðsföll í landinu vegna misnotkunar á fyrrnefndum lyfjum. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Frá upphafi miðlægrar skráningar í lyfjagagnagrunn embættis landlæknis hefur notkun lyfseðilsskyldra ópíóíða aukist umtalsvert. Landlæknir hefur sérstaka eftirlitsskyldu með ávísunum lækna og tannlækna á ávana- og fíknilyf, samanber 18. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu.
Hætta er á misnotkun slíkra lyfja og því mikilvægt að læknar gæti sérstakrar varúðar við ávísun þeirra með hagsmuni sjúklinga og samfélags að leiðarljósi. Þetta er sér í lagi mikilvægt ef lyfin eru ekki notuð með þeim hætti sem til er ætlast. Framangreint á við um ópíóíða og hefur embætti landlæknis, vegna eftirlitsskyldu sinnar, fylgst grannt með ávísunum á lyf í þessum flokki.