Áfengi – ölvun
Þegar áfengisneysla er metin er stuðst við heildarmagn þess áfengis sem neytt er, þ.e. sölutölur áfengis mælt í áfengislítrum og neyslumynstur skoðað með neyslukönnunum. Til viðbótar er svo fylgst með tíðni sjúkdóma sem tengdir eru við áfengisneyslu s.s. fjölda skorpulifurstilfella, ýmsum tegundum krabbameina og tölum um innlangir á meðferðarstofnanir.
Hér má sjá upplýsingar er varða áfengi, neyslumynstur og tengla á aðrar viðeigandi upplýsingar sem tengjast neyslu áfengis.
Áfengi
Áfengi (etanol) er vökvi sem blandast vatni í öllum hlutföllum. Vatnsblanda alkohóls er stundum nefnd spritt. Sterkt spritt er u.þ.b. 96% áfengu vatni. Áfengi er oftast notað í vatnslausn, blandað ýmsum öðrum efnum (litarefnum, bragðefnum o.s.frv.). Ef styrkur áfengis í slíkum blöndum er umfram 2,25% að rúmmáli telst vökvinn áfengur. Etanól kemur fyrir í lyfjum, einkum eldri tegundum lyfja í fljótandi formi og er einnig notað í snyrtivörur. Etanól eða áfengi hefur verið notað sem róandi lyf eða svefnlyf um aldir. Misnotkun áfengis er því eflaust ævagamalt fyrirbæri.
Áfengi er hinn dæmigerði vímugjafi
Áfengi hefur einnig umtalsverða verkjadeyfandi og vafalaust einnig kvíðastillandi verkun. Auk þessa hefur áfengið ýmis önnur lyfhrif. Má þar nefna víkkun æða, aukin þvaglát, aukna saltsýrumyndum í maga og breytingar í fituefnaskiptum (stundum til bóta). Lifrin skiptir meginmáli við umbrot áfengis í líkamanum. Við umbrot áfengis myndast orka sem nýtist líkamanum. Áfengi er að þessu leyti mjög sérstakt efni. Langvarandi áfengisneysla veldur margs konar sjúklegum breytingum, m.a. alvarlegum og jafnvel banvænum lifrarskemmdum, meltingartruflunum og enn fremur vitsmunaskerðingu, oft með heilarýrnun, og getur stuðlað að geðveikikenndu ástandi. Hið síðasttalda á einkum við ef um mikla og langvarandi drykkju er að ræða.
Áfengi dreifist nokkuð jafnt um vefi líkamans. Magn (þéttni) áfengis í blóði er gefið til kynna sem ‰ (pro mille; 1‰ = 1 g/1000 ml). Þéttni áfengis í blóði gefur yfirleitt góðar upplýsingar um neyslu manna. Blóðþéttni áfengis (nú einnig í útöndunarlofti) er lögum samkvæmt sá mælikvarði sem notaður er til að ákvarða sekt eða sýknu manna sem grunaðir eru um ölvun við akstur.
Styrkleiki áfengis
Tegundir áfengis eru nokkrar. Bjór er vægasta tegundin á bilinu 4-8% að rúmmáli. Næst koma létt vín þar sem áfengismagnið er á bilinu 9-14%. Þá eru heitvín sem eru á bilinu 15-20% og loks sterkt áfengi eða brennd vín sem oft innihalda 36-43%. Bjór og létt vín eru áfengistegundir sem framleiddar eru við gerjun. Sterkt áfengi er eimað til að ná meiri áfengis þéttni en við gerjun. Heitvín er blanda af gerjuðum og brenndum vínum. Til léttra vína teljast rauðvín, hvítvín og rósavín. Af heitvínum má nefna sherrý og púrtvín. Af sterku áfengi má nefna vodka, whiský, gin og romm.
Ölvun
Róandi verkun og svefnverkun áfengis er bundin við taugungamót vítt og breitt í miðtaugakerfinu líkt og gildir um fenemal. Verkunarháttur tengist áverkun á gass hliðstætt við fenemal, en áfengið verkar auk þess á glútamínsýru, morfínpeptíð og dópamín. Í litlum skömtum hefur etanól greinilega róandi verkun en svefnverkun í stærri skömmtum. Erfitt er að segja til um skammtastærð fyrir róandi verkun og svefnframkallandi verkun. Hér skiptir máli einstaklingsbundinn munur eins og líkamsþyngd, þreyta o.fl. svo og kyn og það hvort viðkomandi hefur borðað mat á undan drykkju eða ekki.
Ríkur þáttur í áfengisvímu og vímu eftir suma aðra vímugjafa er ósamræmi í hreyfingum (ölvunareinkenni). Ósamræmi í hreyfingum eftir neyslu áfengis er án efa veigamikill liður í aukinni slysatíðni samfara áfengisneyslu.
Sennilegt er að helsti hvati áfengisneyslu sé að komast í vímu við ýmsar félagslegar athafnir eða til tilbrigða frá hversdagsleikanum. Ekki má samt gleyma sjálfslyfjun vegna hugstreitu, svefnleysis eða langvarandi sársauka. Tæpast fer þó milli mála að þeir sem nota áfengi sem lyf nota það gjarnan sem vímugjafa. Sjálfslyfjun er því oft talin vera afbrigði félagslegrar notkunar. Þörfin fyrir vímugjafa virðist vera mjög sterk. Menn hafa sætt sig við óhjákvæmilegar hjáverkanir, s.s. slysa- og sjúkdómahættu og ýmis félagsleg vandamál, sem fylgja áfenginu og reynt að draga úr þeim með því m.a. að stýra notkun þess í hófsamlegt far með lagasetningu.
Ölvunarakstur
Hér á landi og í mörgum öðrum löndum eru sektarmörk fyrir ölvun við akstur miðuð við 0,2‰ etanólþéttni í blóði. Við þessa etanólþéttni má ætla að 10-20% allra gætu sýnt af sér ölvunareinkenni við venjulega klíníska skoðun. Nákvæmari rannsóknir (tilraunaakstur við staðlaðar aðstæður) gefa þó eindregið til kynna að aksturshæfni manna sé um það bil í þriðjungi tilvika trufluð þegar við áfengi í blóði á bilinu 0,4‰ – 0,5‰. Þá hefur verið sýnt fram á að sjónskerpa og snögghreyfingar kunni að truflast þegar við etanólþéttni á bilinu 0,2‰ – 0,3‰, hvort sem það skiptir máli við akstur eða ekki.
Þol
Þol gegn áfengi er venjulega ekki mikið við félagslega notkun þess. Ef neysla er hins vegar á ávanastigi er þol gegn róandi verkun og svefnverkun oft umtalsvert. Fráhvarfseinkenni eru vel þekkt eftir mikla og langvarandi áfengisneyslu. Hin alvarlegustu kallast titurvilla eða „delirium tremens“ sem m.a. einkennist af rangskynjunum (menn sjá rottur, mýs eða skordýr og annað sem ekki á sér stað í raunveruleikanum) og ef til vill krömpum. Hjá miklum drykkjumönnum byrjar titurvilla með titringi í útlimum fáum klukkustundum eftir síðasta áfengisskammt og af því er nafnið dregið. Eftir styttri og minni áfengisneyslu eru fráhvarsfeinkennin m.a. titringur, óeðlilega hraður eða óreglulegur hjartsláttur, höfuðverkur, klígja, uppköst og jafnvel fleiri einkenni frá meltingarfærum. Svokallaða timburmenn eða önnur óþægindi sem menn geta fundið til daginn eftir drykkju má eftir atvikum líta á sem fráhvarfseinkenni eða sem beinar eftirverkanir.
Stundum kemur fyrir að menn „deyja“ eftir neyslu áfengis. Svokallaður áfengisdauði kemur fyrir þegar þéttni áfengis í miðtaugakerfinu er slík að um svæfingu er að ræða. Endanlegur dauði eða dauði fyrir fullt og allt er vel þekktur eftir áfengisneyslu. Ef áfengi í blóði er umfram 3,5‰ er hætta á banvænni eitrun. Sjaldgæft er að menn lifi af áfengiseitrun ef áfengi í blóði er umfram 5‰. Minna magn áfengis getur þó hæglega leitt til dauða. Það er vegna þess að menn kasta oft upp ef þeir drekka mikið. Ælan getur þá lokað öndunarveginum og menn kafnað. Á hverju ári verða hér á landi nokkur dauðsföll sem beinlínis er að rekja til bráðrar áfengiseitrunar.
Áfengi og önnur róandi lyf og svefnlyf hafa samverkandi verkun. Getur þetta leitt til banvænna eitrana. Algengt er að nota áfengi með öðrum vímugjöfum eða neyta þess á milli þeirra. Það er kallað blönduð misnotkun.
Alkóhólismi
Hugtakið alkóhólismi er notað yfir þá erfiðleika sem steðja að einstaklingum sem fengið hafa ávana eða fíkn í áfengi. Samsvarandi er talað um heróínista, morfínista, hassista o.s.frv. Faraldursfræðilegar rannsóknir hér á landi og víðar benda til þess að 10-20% þeirra sem neyta áfengis innan félagslegs ramma, geti í áranna rás færst yfir á stig ávana eða fíknar og orðið alkóhólistar.
Áfengi er engin venjuleg neysluvara
Það hefur margar slæmar og hættulegar afleiðingar að drekka of mikið af áfengi:
• Slys, um helmingur banaslysa í umferðinni og um þriðjungur drukknana er vegna ölvunar.
• Sjálfsvíg, um þriðjung þeirra má rekja til ölvunar.
• Afbrot, stóran hluta afbrota má rekja til ölvunar.
• Ofbeldi af öllu tagi má rekja til ölvunar.
• Morð, helmingur morða eru framin undir áhrifum áfengis.
• Fósturskemmdir, ef drukkið er á meðgöngu getur fóstrið skaðast.
• Heilsutjón, lifrin, heilinn og taugakerfið skemmast.
• Vinnutap og vinnuslys eru oft vegna áfengisneyslu.
• Lakari námsárangur. Áfengisneysla unglinga getur leitt til þess að þeir muna allt að tíu
sinnum minna af því sem þeir eru að læra.
Heimildir:
Fíkniefni og forvarnir, handbók: Þorkell Jóhannesson
Embætti landlæknis, heimasíðan: landlaeknir.is