Rannsóknir







Mikilvægur þáttur í forvarnastarfi



Niðurstöður úr rannsóknum eru mikilvægar í allri stefnumörkun í lýðheilsu- og áfengismálum allt frá hlutum eins og aðgengi að áfengi til barnaverndar og vinnuverndar. Áfengi er stór áhrifavaldur heilsubrests og einn af fjórum algengustu áhættuþáttum fyrir ósmitbærum sjúkdómum og árlega deyja um þrjár milljónir einstaklinga á heimsvísu af áfengistengdum orsökum. Áfengisnotkun hefur áhrif á myndun ýmissa tegunda krabbameina, sykursýki, hjartasjúkdóma, skorpulifur og heilablóðfalls og í rannsóknum á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC) kemur einnig fram að margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra, bæði frá fjölskyldumeðlimum, vinum, kunningjum og ókunnugum. Í íslensku niðurstöðunum kemur m.a. fram að nærri þriðjungur Íslendinga 18 ára og eldri hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra í sínu nánasta umhverfi. Konur og yngra fólk verður frekar fyrir neikvæðum áhrifum vegna drykkju annarra.

Vel er fjallað um rannsóknir um áhrif áfengis og annarra fíkniefna á heimasíðu Landlæknis (sjá Landlæknir).