Nikótínpúðar eru fíknefni


Nikótín telst til svokallaðra alkalóíða en það eru basísk lífræn efni sem finnast í plöntum. Nikótín finnst í blöðum tóbaksplöntunnar Nicotiana tabacum sem óx upphaflega í Ameríku en barst til Evrópu fyrir um 500 árum. Hreint nikótín var fyrst unnið úr tóbaki á fyrri hluta 19. aldar. Það er í fljótandi formi og mjög eitrað þar sem einungis 2-3 dropar af hreinu efni geta reynst banvænn skammtur.

Nikótín hefur öfluga örvandi verkun á allt taugakerfið, þar með talið heila og mænu. Nikótín hefur beina örvandi verkun á viðtaka taugunga (taugafrumna) sem leiðir til losunar ýmissa boðefna og hormóna, til dæmis endorfíns, adrenalíns og vaxtarhormóna. Einnig örvar það hjarta og mörg önnur líffæri. Hjartsláttur verður örari, æðar dragast saman, ekki síst í húð og innyflum og blóðþrýstingur hækkar. Líkamshiti lækkar vegna æðaþrenginga og aukin þarmastarfsemi getur leitt til niðurgangs. 

Þvagmyndun dregst saman í tvo til þrjá klukkutíma sem veldur vökvasöfnun hjá neytandanum. Nikótín breytir líka fituinnihaldi blóðsins og eykur magasýrur. Vöðvaspenna minnkar og veldur því að sumum finnst þeir finna fyrir róandi áhrifum þótt nikótín sé örvandi efni.


Margt er enn óljóst um verkun nikótíns á fóstur og þungaðar konur. Þó er vitað að nikótín fer auðveldlega gegnum fylgju og þrengir æðar, herðir á hjartslætti og hækkar blóðþrýsting fóstursins. Auk þessa er talið að nikótín hafi bein áhrif á heila- og hjartastarfsemi fósturs. Þannig má sýna fram á minnkaðar hreyfingar fósturs og tíðari hjartslátt samfara reykingum móður. Nikótín finnst í brjóstamjólk mæðra sem reykja. Reyndar getur styrkur þess í blóði barns sem er á brjósti verið hærri en hjá móðurinni.


Í stórum skömmtum getur nikótín leitt til skjálfta og krampa.  Banvænn skammtur nikótíns er um 50 mg, en svo stór skammtur leiðir til lömunar í þind og rifjavöðum og öndunarstöðvum í heilastofni.


Vegna þess að nikótín er vanabindandi koma fram fráhvarfseinkenni fáeinum klukkustundum eftir að nikótíns er neytt. Þau geta meðal annars verið eirðarleysi, kvíði, pirringur, þunglyndi, höfuðverkur, magaverkur, svefnleysi, svimi og aukin matarlyst. Þótt fráhvarfseinkenni nikótíns séu ekki lífshættuleg geta þau reynst afar óþægileg og langvarandi.

Ussnuss
fjallar um áhrif snuss og niktótínpúða á mannslíkamann, markaðssetningu þess meðal ungmenna og hvernig fíkniefnið nikótín er með misvísandi upplýsingum gert að kræsilegri neyslu- og lífsstílsvöru.
Hann Snussi er einmitt hrifinn af þeim lífsstíl sem þessu snussi fylgir og á eftir að sýna okkur ýmislegt sem hann hefur uppgötvað.

Styrkt af Reykjavíkurborg og fleiri aðilum.