Nikótín er að finna í tóbaksplöntunni Nicotiana tabacum, sem óx upphaflega í Ameríku. Tóbak er misjafnlega unnin afurð tóbaksplöntunnar og í því eru þúsundir efna auk nikótíns. Sum efni í tóbaksreyk myndast fyrst þegar reykt er.
Algengasta form tóbaks er reyktóbak og langútbreiddasta form þess er sígarettur. Sígarettur eru háþróuð iðnaðarframleiðsla sem tíðkaðist fyrst á 19. öld. Hreint nikótín var fyrst unnið úr tóbaki á fyrri hluta 19. aldar. Það er fljótandi og fyrir óvana einstaklinga er það meðal eitruðustu efna sem þekkjast.
Nikótín veldur ekki vímu fremur en koffein og sjaldan fíkn, en það er mjög sterklega ávanabindandi.
Verkun nikótíns er mild að því leyti að skynjun manna á umhverfinu breytist ekki og ekki heldur viðbrögð þeirra. Eftir venjulega skammta af nikótíni (0,5-2 mg tekið í munn, nef eða í úða til innöndunar) verður hjartsláttur hraðari, æðar dragast saman, ekki síst í húð og innyflum, og blóðþrýstingur hækkar. Munnvatnsrennsli eykst og slímrennsli í nefi og berkjum. Samdráttur í innyflum eykst og niðurgangur getur komið fyrir. Öndun örvast og einnig svokölluð uppsöluhvetjandi miðstöð í heilastofni. Nikótín í þessum skömmtum getur valdið titringi. Nikótín dregur úr þvaglátum og truflar efnaskipti fitu.
Ef stærri skammtar nikótíns eru gefnir (um 5 mg) ber meira á flestum fyrrnefndum einkennum. Þá væri talað um bráða eitrun (væga). Væg eitrunareinkenni geta þó komið fyrir eftir minni skammta. Ef enn stærri skammtur væri gefinn (10 mg) færi að bera á ýmsum lömunareinkennum. Banvænn skammtur nikótíns er um 50 mg eða 2-3 dropar af hreinu nikótíni. Dauði er af völdum lömunar í þind og rifjavöðvum og öndunarstöð í heilastofni. Eitrun getur borið mjög brátt að og leitt fljótt til dauða.
Nikótín losar dópamín í Nucleus accumbens í tilraunum með dýr svipað og önnur lyf og efni sem fjallað hefur verið um. Að auki losar nikótín mörg önnur boð- efni og hormóna úr taugungum í miðtaugkerfinu. Hugsanlegt er að þetta mildi áhrif nikótíns í miðtaugakerfinu þannig að það valdi ekki vímu og sjaldan fíkn (með hliðsjón af víðri skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á fíkn eru þó ýmsir sem telja að nikótín valdi að jafnaði fíkn). Líklegt er að langflestar verkanir nikótíns megi rekja beint eða óbeint til losunar á umræddum boðefnum og hormónum.
Nikótín verkar á eina tegund viðtækja sem boðefnið acetýlkólín verkar á og nefnd eru nikótínviðtæki vegna næmi þeirra gegn nikótíni. Þessi viðtæki eru í úttaugakerfinu og víða í miðtaugakerfinu, m.a. í heilaberki og stúku og áverkun á þau leiðir til losunar ýmissa boðefna og hormóna. Meðal þeirra boðefna sem nikótín losar úr taugungum í miðtaugakerfinu eru acetýlkólín, nora- drenalín, serótónín og endorfín auk dópamíns. Trúlega losar nikótín einnig bæði gass og glútamínsýru úr taugungum. Hormónar sem nikótín losar úr taugungum eru m.a. kortíkótrópín, vasópressín, prólaktín og vaxtarhormón. Athyglisvert er að hýdrókortísón, sem kortíkótrópín losar úr nýrnahettuberki við margs konar álag, öðru nafni streitu, dregur úr næmi nikótínviðtækjanna.
Þol gegn verkunum nikótíns er mismikið. Þol gegn banvænni verkun nikótíns og gegn klígju og verkun á þarma virðist ýmist vera meira eða miklu meira eða standa lengur en þol gegn verkun á æðar og hjarta og gegn vellíðunarkennd og eflingu vökuvitundar.
Fráhvarfseinkenni eftir nikótín eru velþekkt. Þau eru venjulega öfug við verkanir nikótíns. Einkennin byrja fáeinum klukkustundum eftir inntöku. Þau eru t.d. kvíði, eirðarleysi, aukin matarlyst, hægðatregða, sljóleiki, hægari hjartsláttur og ásókn í sígarettur. Einkennin ná hámarki eftir fáeina daga og geta staðið í nokkrar vikur. Þau hverfa með viðeigandi skammti af nikótíni.
Texti: Þorkell Jóhannesson; Fíkniefni og forvarnir, handbók fyrir heimili og skóla, FRÆ 2001