You are currently viewing Landlæknir leggur til að stofnuð verði Fíknivakt
Alma Möller landlæknir

Landlæknir leggur til að stofnuð verði Fíknivakt

Alma Möller landlæknir birti grein í fjölmiðlum um fíkni­vandann, sagði stöðuna alvarlega og hvatti þar til átaks í fíknivörnum. Alma fór yfir sviðið hér á landi og var tíðrætt um ópíóíðafaraldurinn sem ríkt hefur síðustu misserin og bent í því sambandi á að stjórnvöld hefðu brugðist við vandanum með ýmsum hætti, en meira mætti þó gera.

Mikilvægt væri að hafa rauntímavöktun á umfangi vandans og skörp viðbrögð til samræmis. Til þess þyrfti aðkomu margra ráðuneyta, stofnana og félagasamtaka. Því lagði landlæknir til við heilbrigðisráðherra í maí sl. að komið yrði á fót slíkum hópi sem t.d. mætti kalla Fíknivaktina. Fundir væru reglulega undir stjórn sérstaks verkefnastjóra og væri nefndinni falin vöktun, greining á stöðu mála hverju sinni og hefði nefndin nauðsynlega heimildir til að gera hlutaðeigandi stofnunum að bregðast hratt við eftir þörfum. Fíknivandi verður án efa til staðar áfram, nú eru það ópíóíðar, ekki síst oxýkódón, sem eru efstir á baugi en hver veit hvað kemur næst.

Það liggur þannig á að finna lausnir til skemmri tíma. En það þarf líka að huga að málum til lengri tíma. Huga þarf að forvörnum, snemmtækri íhlutun, greiningu, vöktun, heilbrigðis- og félagsþjónustu, eftirfylgd og endurhæfingu sem og skaðaminnkandi úrræðum er varða notendur, aðstandendur og samfélagið í heild.

Heimild: visir.is

Deila