„Ísland leyfði bjórinn árið 1989 en er ekki líklegur brautryðjandi að breyttri fíkniefnapólitík,“ er haft eftir Helga Gunnlaugssyni, prófessors í félagsfræði við HÍ, í nýlegu Morgunblaðsviðtali (mbl.is). Hvort Helgi hafi í huga aukna áfengisneyslu í kjölfar bjórsins skal ásagt látið en Helgi segir fíkniefnavandann alþjóðlegan og að farsælast sé að leysa hann í samstarfi við aðrar þjóðir.
Oft er sagt að stríðið gegn fíkniefnum sé tapað en Helgi er þeirrar skoðunar að það sé orðum aukið. „Þegar allt kemur til alls er fíkniefnaneysla á Íslandi í reynd mjög lítil og miklu minni en til dæmis áfengisneysla. Hugsanlega er pottlok á þessum markaði sem bannið veitir þótt andstaðan við fíkniefni sé einnig félags- og menningarleg. Brýnast er að nálgast betur fólk með fíknivanda eins og þau sem sprauta sig í æð og huga að forvörnum.“ Helgi minnir á að dregið hafi úr áfengisvanda ungs fólks um og eftir aldamótin síðustu, auk þess sem verulega hafi dregið úr tóbaksnotkun á Íslandi. Í dag er „íslenska forvarnamódelið Planet Youth“ kynnt sem árangursrík leið í forvarnastarfi meðal ungmenna víða um heim (mbl.is). Með „íslenska módelinu“ er lögð áhersla á að forvarnir skipti mjög miklu máli í baráttunni við vímuefnavandann.
Engar sögur fara enn af því hvort eða hvernig „Planet Youth“ dragi úr vandanum en líklegast er að forvarnastarf frjálsra félagasamtaka á Íslandi á 9. og 10. áratug síðustu aldar hafi lagt grunninn að minnkandi áfengisneyslu unglinga sem birtist fyrst í rannsóknum um síðustu aldamót. Árin 1993 – 1995 var t.a.m. blásið til átaksins Stöðvum unglingadrykkju af forvarna- og foreldrasamtökum með þátttöku heimila, foreldra og skóla, félagasamtaka og stofnana um land allt og með virkari þátttöku samfélagsins alls urðu þannig til skýrari reglur um útvistartíma barna, fræðslu- og leitarstarf í grunnskólum, mikilvægi frístundastarfs, mikilvægi samveru barna og foreldra, notkun foreldrasáttmála og foreldrarölts, samstarf lögreglu og sveitarfélaga gegn landasölu og auknum mæli þátttaka og samráð ríkis og félagasamtaka í forvörnum, svo eitthvað sé nefnt. Þessu átaki var svo fylgt eftir með verkefnum embættis- og stjórnmálafólks eins og ECAD (Europian Cytis Against Drugs) hjá Reykjavíkurborg og landsátakið Ísland án eiturlyfja 2002, en líklegast er að samtakamátturinn hafi lagt grunninn að „íslensku leiðinni“ í forvörnum, þ.e. hvernig allir gengu í takti að sömu markmiðum í áfengis- og vímuvörnum meðal barna og unglinga.
Stríð gegn fíkniefnum tapað; gagnslaus samlíking!
En hver er staðan í forvörnum hér þegar kemur að öðrum fíkniefnum en áfengi? Að áliti Margrétar Valdimarsdóttur, doktors í afbrotafræði og dósents í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, er mikilvægt til dæmis að hætta að tala um stríð gegn fíkniefnum, slík samlíking geri ekkert gagn. En Margrét telur umræðuna um afglæpavæðingu neysluskammta gagnlega enda sé þar verið að koma til móts við verst stadda hópinn sem lifi og hrærist í heimi sem umfram annað einkennist af ofbeldi og eymd. „Í þeim heimi er mikið um afbrot af öðru tagi og úr því viljum við draga. Við megum samt ekki láta eins og eina lausnin sé að lögleiða fíkniefni. Fíkniefni eru auðvitað ekki hættulaus, þau geta verið mjög skaðleg. Það á ekki síst við um andlega heilsu en fólk sem er veikt fyrir leitar gjarnan í neyslu (mbl.is).“
Margrét telur þessa umræðu þrátt fyrir allt hafa breyst mikið hér á landi undanfarin ár, flestir séu hættir að líta á það sem alvarlegan glæp að nota fíkniefni. Að sögn Margrétar er ósennilegt að afglæpavæðing auki fíkniefnaneyslu ungs fólks, það sé til dæmis magnað að sjá hversu mikið áfengisneysla ungmenna á Íslandi hefur dregist saman á umliðnum 20 til 30 árum. Þökk sé aðferðum í forvörnum meðal barna og unglinga og vitnar Margrét þar líklegast til forvarnastarfs á 9. og 10. áratug síðustu aldar þar sem markmiðið var að bregðast við stóraukinni áfengisneyslu barna.
Heimildir
Morgunblaðið 18. júní 2022.