Halldóra Mogensen þingmaður Pírata sagði á Alþingi í vor að skaðaminnkun miði að því að draga úr áhættu sem hlýst af notkun vímuefna og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. Eitt af því sem rætt hefur verið um í þessu sambandi er afglæpavæðing neysluskammta og var frumvarp þessa efnis á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sl. vetur en heilbrigðisráðherra ákvað að leggja það ekki fram.
Halldóra segir að stefna stjórnvalda í málaflokknum virki ekki sem skyldi. „Skaðinn er að aukast, andlátum er að fjölga, vanlíðan fólks er að aukast og við verðum að grípa inn í. Stefnan sem við erum að keyra í dag er ekki að virka,“ sagði Halldóra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur viljað leggja áherslu á meðferðarúrræði og forvarnir. Hann sagði verulegan árangur hafa náðst á undanförnum árum meðal annars með aukinni þjónustu við fólk í neyslu.
„Ég held að við verðum að virða þann þátt sem snýr að refsingu fyrir glæp og maður horfir á skaðaminnkunarhugtakið að þá getur það valdið tjóni í sjálfu sér. Þannig verðum við að horfa á þetta en ekki missa sjónar af því að við verðum að fara í fjölbreytt úrræði og það hefur náðst árangur,“ sagði Willum Þór.