You are currently viewing Marktækt meiri fordómar vegna fíknivanda
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands

Marktækt meiri fordómar vegna fíknivanda

Mun meiri fordómar mælast gegn einstaklingum með fíknivanda á Íslandi en með annan vanda. Meira en helmingur Íslendinga vill ekki fólk með fíknivanda sem nágranna. 
Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem unnin er af Sigrúnu Ólafsdóttur, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og kostuð er af landssamtökunum Geðhjálp. Um er að ræða fyrsta skiptið sem viðhorf til fíknivanda eru mæld hér á landi og verða þau hér eftir mæld á tveggja ára fresti.
Sigrún segir að það sé gífurlega verðmætt fyrir rannsakendur að geta framkvæmt slíka rannsókn á tveggja ára fresti. Áhugavert verði að sjá hvernig næstu ár muni verða í samanburði við árið í ár.
Hún segir að hafa þurfi í huga að spurningarnar um fíknivandann byggi á lýsingu rannsakenda á fíknivanda.
Um sextíu prósent Íslendinga vill ekki vera nágranni fólks með fíknivanda. Sigrún segir það líka áhugavert að sjá að Íslendingar telji það hafa neikvæð áhrif fyrir einhvern sem greindur er með geðklofa eða fíknivanda að segja frá eða fara í meðferð.
„Bæði af því að fólki er neitað um ákveðin tækifæri og það upplifir beina fordóma. En síðan er það sem við vitum líka vegna rannsókna að mjög stór hluti af því sem hefur áhrif er að fólk í rauninni fer að búast við að fá ekki tækifæri, búast við að verða hafnað, af því að það veit alveg hvernig viðhorf eru í samfélaginu,“ segir Sigrún.


Heimild: Visir.is

Deila