You are currently viewing Ópíóíðafaraldur hér á landi
Valgerður Rúnarsdóttir

Ópíóíðafaraldur hér á landi

Staðhæfingar um andlát af völdum fíkniefna hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum síðustu daga. Sums staðar er sagt að fimmtán hafi látist á síðustu tveimur vikum, annars staðar að þrjátíu og sex hafi látist frá áramótum. 

Þrjátíu og fimm manns með fíknivanda hafa látist það sem af er ári segir Valgerður Rúnarsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ en hún óttast að metfjöldi falli frá á árinu.

„Við vitum að þau eru með fíknisjúkdóm og allar líkur á að það tengist þeim sjúkdómi, segir Valgerður. Vonandi er þetta ekki að endurspegla eitthvað sem heldur áfram allt árið en Valgerður óttast að haldi þessi þróun áfram eigi talsvert fleiri eftir að deyja á þessu ári en síðustu fimm. Ekki er hægt að segja hvað liggur að baki. 

Við vitum að það er mikil aukning í ópíóíðafíkn, sérstaklega hjá þessum yngri hóp. Það er mjög hættuleg fíkn. Þessi sterku verkjalyf, oxycontin og contalgin sem er fyrst og fremst verið að nota á Íslandi, þau eru bara bráðdrepandi.“

Fólk er hrætt
Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi úrræðis Rauða krossins, hefur fundið fyrir aukningunni síðustu daga að sögn Hafrúnar Elísu Sigurðardóttur teymisstjóra skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir

„Fólk er mjög hrætt og vill fá fræðslu sem er nauðsynlegt. Við reynum að fræða fólk eins og við getum með þá skammtastærðir, hvaða áhrif efnin hafa á fólk og svo fræðslu um naloxone, að fólk sé alltaf með naloxone nefúða á sér en Naloxone-nefúði er notaður sem neyðarmeðferð við of stórum skammti ópíóíðalyfja.“ 

Á samfélagsmiðlum segir líka að nú séu efni í umferð þar sem morfínskylda lyfinu fentanýl hafi verið blandað út í önnur efni eins og LSD, oxycontin og kókaín. Slík lyf hafa valdið miklum skaða til dæmis í Bandaríkjunum.

Willum Þór

Hafrún segir ekki hægt að staðfesta að slík efni séu í umferð, en að teymið hjá frú Ragnheiði hafi áhyggjur af því, sem og skjólstæðingar. 

Willum Þór; við verðum að hlusta
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra segir frásagnir af andlátum af völdum fíknisjúkdóma sorglegar;  „Við verðum að hlusta. Það er eitthvað í samfélaginu okkar að breytast. Það er augljóst.“

Willum segir að meira þurfi að gera á fjölmörgum sviðum. Til að mynda þurfi að styrkja viðhaldsmeðferð sem er veitt á Vogi en hann hefur lagt til við ríkisstjórn Íslands að aukið verði framlag til SÁÁ um 170 mkr. nú þegar.


Úr frétt RÚV 25. apríl 2023

Deila