You are currently viewing Ráðherra boðaði til skyndifundar vegna innflutnings á nitazene
Alma Möller heilbrigðisráðherra

Ráðherra boðaði til skyndifundar vegna innflutnings á nitazene

Lífsspursmál að bregðast við heilbrigðisógn af völdum nitazene

Alma Möller heilbrigðisráðherra segir það lífsspursmál að gera allt sem hægt er til að fyrirbyggja að efnið nitazene, ópíóíði sem er framleiddur á ólöglegum tilraunastofum, komist inn á fíkniefnamarkaðinn hér á landi. Efnt var til skyndifundar um stöðuna, tilefnið var haldlagning Tollsins fyrir helgi á tuttugu þúsund fölsuðum töflum sem litu út eins og oxycontin en innihéldu nitazene. Fulltrúum á vegum Lyfjastofnunar, Landspítala, embætti landlæknis, tollayfirvalda, lögreglunnar, Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, Afstöðu og Matthildi skaðaminnkun var boðið til fundarins. Fundurinn var liður í því en þar var meðal annars rætt um tillögur að tafarlausum aðgerðum, meðal annars með hliðsjón af minnisblaði sem Matthildur skaðaminnkun og Afstaða, félag fanga, skiluðu til ráðuneytisins í gær. Þá hefur starfsfólk í skaðaminnkandi úrræðum hjá Rauða krossinum fundið fyrir auknum áhuga á uppruna efna.

Dauðsföll af völdum nitazene staðreynd

„Við þurfum að vinna enn hraðar. Við þurfum að vakta vel hvaða efni eru á sjóndeildarhringnum í öðrum löndum,“ segir Alma, en hún segir dæmin sanna að þegar efnið hefur numið land í öðrum hafi orðið dauðsföll. „Það er full ástæða til að vera á varðbergi og gera allt sem hægt er að gera til að minnka skaðsemi.“

Samkvæmt fjáraukalögum í vor er gert ráð fyrir 350 milljónum til fíknimála að sögn Ölmu Möller heilbrigðisráðherra. Samræma þarf verklag um hvernig fólk er varað við ásamt því að vinna fræðsluefni um nitazene. „Ég vil hvetja alla til að vera á varðbergi, bæði notendur og heilbrigðisstarfsmenn,“ segir heilbrigðisráðherra.

RUV apríl 2025

Deila