Ekki er samstaða um breytingar á lögum um smásölu áfengis í ríkisstjórn að sögn fjármálaráðherra. Hann segir ástandið ekki gott, hreinskiptin umræða sé tímabær og það sé löggjafans að gera breytingar.
„Eigum við ekki að segja að það sé nú pínulítið villta vesturs ástand þarna úti. Það er alveg ljóst að það er óvissa, allavega er túlkun þeirra sem starfa á markaðnum önnur en til dæmis lögreglunnar sem hefur verið að beita sér gegn þeim og þannig ástand er auðvitað aldrei gott,“ segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.
Lögregla lokaði afhendingarstöðum tveggja áfengisnetverslana bæði á milli hátíða og um liðna helgi. Rekstraraðilar hafa kallað eftir uppfærðri reglugerð um smásölu áfengis.
Daði Már segir erfitt að ná málamiðlun milli stjórnarflokkanna um umgjörð í málaflokknum.
„Það eru auðvitað skiptar skoðanir. Viðreisn hefur lengi talað fyrir því að þessar reglur séu rýmkaðar, það er hins vegar ekkert endilega skoðun sem á hljómgrunn meðal allra stjórnmálaflokka og ekki einu sinni meðal stjórnarflokkanna. Þannig að það er erfitt að komast að málamiðlun varðandi það.“
Hann segir ekki þar með sagt að umgjörð um áfengissölu verði óbreytt. Hann geri ráð fyrir því að frumvörp verði lögð fram og það sé þá löggjafans að taka afstöðu.
„Þetta er mjög umdeildur málaflokkur, það eru mjög sterkar skoðanir í mörgum íslenskum stjórnmálaflokkum um þennan málaflokk. Það að leyfa þessu að reka á reiðanum er mjög skrítin leið til þess að leggja svoleiðis mál niður. Miklu eðlilegra væri að það væri tekin um þetta hreinskiptin umræða,“ segir Daði Már Kristófersson.
