Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært framkvæmdastjóra félags sem heldur utan um rekstur Icelandic Trading Company b.v, sem rekur netsölu með áfengi undir merkjum Smáríkisins.
Fimm ár í vinnslu
Ákæran hefur verið nokkuð lengi í burðarliðnum en tvær kærur vegna ætlaðrar ólögmætrar netverslunar með áfengi voru lagðar fram fyrir liðlega fimm árum. Í byrjun júní komu málin inn á borð ákærusvið Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á ný, eftir að sviðið hafði sent málin aftur í rannsókn hjá lögreglu.
Hingað til hefur lögreglan ekki viljað láta uppi að hvaða netverslunum kærurnar tvær beindust en nú liggur fyrir að önnur þeirra var Smáríkið. Arnar Sigurðsson, eigandi Santé, sagði í samtali við Ríkisútvarpið á dögunum að honum hefði verið tjáð af lögreglumanni að hann ætti yfir höfði sér ákæru.
Allt að sex ára fangelsi
Heiðar Ásberg segir ákæruna á hendur framkvæmdastjóranum vera heldur óljósa í heild en ljóst sé að hann sé ákærður fyrir háttsemi sem allt að þrjátíu fyrirtæki hafa stundað hér á landi um árabil. Ákært sé fyrir brot á áfengislögum en slík brot varða allt að sex ára fangelsisvist.
Þá getur sá sem fer með ávinning af slíkum brotum gerst sekur um peningaþvætti í skilningi almennra hegningarlaga, sem varðar einnig sex ára fangelsi.
Viðskiptablaðið greindi fyrst frá