You are currently viewing Netsala áfengis er risastórt lýðheilsumál
Þórunn Sveinbjarnardóttir

Netsala áfengis er risastórt lýðheilsumál

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins segir það ólíðandi að netverslanir með áfengi fái að starfa óáreittar þar sem starfsemi þeirra brjóti í bága við lög. Hún segir að tími sé til kominn að Alþingi og framkvæmdavaldið geri eitthvað í málinu: „Þetta er alvarlegt mál og það snýst um það hvort ÁTVR hafi einkasölurétt á smásölu áfengis eða ekki. Svo er þetta auðvitað risastórt lýðheilsumál og tengist þar af leiðandi líka áfengisvarnarstefnu okkar, sérstaklega gagnvart börnum og ungmennum. Mér finnst ástæða til að ræða þetta hér í dag.“

Þórunn vísaði einnig í orð forstjóra ÁTVR í ársskýrslu verslunarinnar fyrir síðasta ár, sem hann segir valda ÁTVR miklum skaða. Forvarnarsamtök hafi einnig haft samband við hana og gert alvarlegar athugasemdir við tilveru þessara netverslana. Meðal þeirra sem hafa beitt sér gegn starfsemi áfengisnetverslana hér á landi er Árni Guðmundsson. Fyrir vikið hefur hann verið kallaður leiðinlegasti maður Íslandssögunnar. Árna er hins vegar alveg sama og hefur haldið ótrauður áfram.

Deildar meiningar
Deildar meiningar hafa verið um hvort starfsemi þessara áfengisnetverslana sé lögleg. Íslenskar áfengisnetverslanir nýttu sér það að glufa var í áfengislögunum sem sögð var heimila áfengissölu erlendra netverslana hér á landi.
Þórunn Sveinbjarnardóttir telur tímabært að því verði breytt og segir áfengislögin vera alveg skýr.

Sala á áfengi dróst saman um tvö prósent hjá ÁTVR á síðasta ári og hlutfall fyrirtækisins af greiddum áfengisgjöldum hefur lækkað úr 73,7 prósentum í 68,2 prósent á fjórum árum. Þetta segir Ívar J. Arndal forstjóri að sé vegna ólöglegrar áfengissölu á netinu sem hafi fengið að viðgangast átölulaust. Sömuleiðis hefur tóbakssala dregist mikið saman.

Ívar fjallar um þetta í ársskýrslu ÁTVR 2023. Þar segir hann að álykta megi að ólögleg netsala á áfengi sé helsta ástæðan fyrir því að vínsala ÁTVR hefur dregist saman. Það hefur leitt til þess að fyrirtækið borgar 400 milljón krónum minna í arð til ríkisins en áður. Og í inngangi sínum leggur Ívar mikla áherslu á lýðheilsumarkmið í rekstri ÁTVR og bendir á að ríkisfyrirtækið hafi fengið einkarétt á áfengissölu með þeim rökum. Þess vegna hafi stjórnendur brugðist við þegar einkafyrirtæki fóru að selja áfengi á netinu.

Fyrir Alþingi liggur fyrir frumvarp um að leyfa netsölu áfengis á Íslandi en óvíst er um hvort það frumvarp náist inná dagskrá þings fyrir sumarleyfi. Þórunn og ýmsir aðrir þingmenn hafa þungar áhyggjur af þvi hvort þetta frumvarp verði afgreitt á lokametrum vetrarþingsins.

Heimild DV

Deila