Rannsóknin byggist á rannsókn á öðrum rannsóknum um áfengisneyslu. Niðurstaða nýju rannsóknarinnar er skýr að sögn Washington Post sem segir að hún sýni að niðurstöður fyrri rannsókna séu rangar.
Tim Naimi, meðhöfundur rannsóknarinnar, segir að ástæðan sé að ekki hafi verið vandað nægilega til verks í fyrri rannsóknum. „Skilaboðin eru skýr, hvað varðar áfengisneyslu. Þeim mun minna, þeim mun betra,“ sagði hann.
Farið var yfir 107 rannsóknir sem ná allt aftur til 1980. Um fimm milljónir manna tóku þátt í þeim.
Í mörgum þeirra var komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem drekka ekki áfengi glími við meiri heilsufarsvanda en þeir sem neyta áfengis í hóflegu magni. En höfundar nýju rannsóknarinnar segja að þetta byggist á því að fólk sem drekkur ekki áfengi glími oft við heilsufarsvandamál sem geri að verkum að það neytir ekki áfengis. Sem sagt, sjúkdómur veldur því að það drekkur ekki áfengi.
Einnig getur verið um fyrrum alkóhólista að ræða sem hafa lagt drykkjuna á hilluna.
Fólk, sem neytir áfengis í hófi, er oft við góða heilsu og þar sem það drekkur ekki mikið magn áfengis helst heilsa þess góð. En hún væri enn betri ef það myndi algjörlega sleppa því að neyta áfengis segir í nýju rannsókninni.