Sambandsþing UMFÍ, fer fram 10. – 12. október 2025 en fyrir þinginu liggja mörg mál, m.a. þingskjal um „Áskorun til stjórnvalda, lýðheilsa og forvarnir“, sem ber vott um þá ábyrgð og áhuga sem UMFÍ hefur sýnt í forvarnamálum barna og ungmenna.
En með öðru þingskjali: „Áfengissala á íþróttaviðburðum,“ kveður við annan tón og spurningin er ekki hvort heldur hvernig UMFÍ eigi að selja áfengi á íþróttaviðburðum. Nokkrir aðilar hafa sett spurningamerki við þetta skjal Sambandsþingsins og telja það eins fjarri markmiðum UMFÍ og komist verður að samþykkja áfengissölu. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum telja skjalið sýna í verki bæði vanþekkingu á forvarnarstarfsemi og ekki síður á áfengislöggjöf um sölu og veitingu áfengis og skora á þingfulltrúa UMFÍ að hafna þessari tillögu.
Ekki í fyrsta sinn sem karpað er um áfengisneyslu og íþróttastarf og minnistæð er umræðan í byrjun 20. aldar þegar tvær stærstu félagshreyfingar landsins UMFÍ og IOGT, deildu um samleið áfengis og þess starfs sem unnið var innan félaganna. Bindindi var skilyrði fyrir þátttöku í báðum hreyfingunum, en eftir hatramar deilur og karp um bindindisheitið skildu leiðir og UMFÍ tók það út sem inntökuskilyrði en stúkumenn véku aldrei frá þeirri reglu, fyrr eða síðar.