Árni Guðmundsson telur að endurskoða þurfi fjárveitingar til KSÍ verði leyfð bjórsala á íþróttaviðburðum því það stangist á við æskulýðs- og lýðheilsumarkmið hreyfingarinnar. „Þetta er mjög sérstakt að íþróttahreyfingin sé að fara að beita sér í einhvers konar djammstarfsemi eða sækja um áfengisleyfi,“ segir Árni Guðmundsson, sérfræðingur í æskulýðsmálum.
KSÍ fer fram á að sömu reglur gildi um áfengissölu á viðburðum þeirra og ríkja í nágrannalöndum. „Þetta er í grundvallaratriðum allt önnur starfsemi, ef við tökum enska boltann sem dæmi þá eru það bara hlutafélög á markaði,“ segir hann. „Öll þessi ensku fótboltalið eru ekki með barna- og ungliðastarf, þau njóta ekki opinberra styrkja,“ segir Árni. „Ensku liðin séu rekin í hagnaðarskyni og því eðlilegra að þau leiti allra leiða til þess að verða sér út um frekari gróða á meðan KSÍ eru samtök eða hreyfing, það er víðtækt barnastarf og unglingastarf og þeir njóta verulegra opinberra styrkja í formi þess að við sem erum að borga skatta byggjum leikvanga og við styðjum íþróttahreyfinguna með ráðum og dáð,“ er haft eftir Árna í Morgunblaðinu 20. desember og hann telur það undarlegt að slíkur stuðningur sé síðan launaður með áformum um að taka þátt í því sem hann kallar „djammstarfssemi“.
„Það er alveg klárt að forvarnagildi og lýðheilsusjónarmið í íþróttahreyfingunni hafa í för með sér ákveðnar skyldur og það er það að hafa ekki bjórdollu í annarri hendi og forvarnaráætlun í hinni hendinni,“ segir Árni sem segir það óboðlegt að íþróttahreyfingar séu í samstarfi við áfengis- eða tóbaksiðnaðinn eða annað sem ógni lýðheilsu. Mögulega þurfi að endurhugsa fjárveitingar.