You are currently viewing Fleiri börn fæðast í nikótínfráhvörfum
Auðvelt að fela nikótínpúðana

Fleiri börn fæðast í nikótínfráhvörfum

Sífellt fleiri börn fæðast í nikótínfráhvörfum hérlendis sem má að öllum líkindum tengja við stóraukna notkun á nikótínpúðum síðustu ár. Unnur Berglind Friðriksdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands segir þetta minna á þá tíma þegar það var algengt að konur reyktu á meðgöngu.

Berglind Friðriksdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands

Notkun nikótínpúða hefur stóraukist síðustu ár og hafa þeir nánast alfarið komið í stað reykinga. Þótt nikótínpúðar líti sakleysislega út hafa þeir mikil áhrif á líkamann enda er nikótín sterkt taugaeitur. Þessi nýja heilsufarsvá er farin að hafa ófyrirséð áhrif á þau sem neyta púðanna ekki sjálf – nefnilega börn. Fjöldi barna sem leitar á bráðamóttöku í hverri viku eftir að hafa gleypt nikótínpúða hefur margfaldast síðustu ár og sífellt fleiri börn fæðast í nikótínfráhvörfum.

Börnunum líður hræðilega
„Börnin eru að fæðast í fráhvörfum og það kemur í ljós nokkrum klukkutímum eftir fæðingu. Þá fara börnin að upplifa fráhvörfin og eru þá mjög pirruð og gráta mikið. Þessi fráhvarfsgrátur er skærari en annar grátur og börnunum bara líður illa eins og fullorðnu fólki sem er í fráhvörfum.“

Auðvelt að fela notkunina
Mæðravernd heilsugæslunnar heldur ekki utan um tölfræði yfir hversu margar konur neyta nikótíns á meðgöngu og því eru engar upplýsingar um það fyrirliggjandi. Þó er ljóst að sífellt fleiri konur nota nikótínpúða á meðgöngu enda er auðvelt að fela notkunina. Berglind segir að fólk geri sér oft ekki grein fyrir að nikótínpúðarnir séu ávanavara og hafi skaðleg áhrif meðal annars á taugastarfsemina. Fólk upplifi púðana sem saklausa vöru og telji mikinn stigsmun á því að setja púða með jarðarberjabragði í vörina og að kveikja sér í sígarettu eða reykja rafrettu.

Oft líður börnunum betur þegar móðirin fer að mjólka almennilega og fá þá aftur nikótínskammtinn í gegnum brjóstamjólkina. Þá fara börnin í fráhvörf þegar þau hætta á brjósti eða þegar móðirin hættir að nota nikótín.

Mbl. okt24

Deila