Alma Möller, heilbrigðisráðherra, segist vera að undirbúa frumvarp sem meðal annars er ætlað að setja skorður við markaðssetningu á nikótínpúðum en sú vara hafi upphaflega nýst vel til að hjálpa fólki við að hætta að reykja en markaðssetning hafi gengið of langt.
Halla Hrund Logadóttir tók málið upp á þingi á dögunum. Hún vísaði sérstaklega til „glaðlynda gæjans“ sem mun vera verslunin Svens sem er sérverslun með níkótínpúða. Hún gagnrýndi sérstaklega markaðssetningu verslunarinnar.
„Þessi skaðlega vara er markaðssett sem einhvers konar Extratyggjó, af fígúru sem er blanda af Mikka mús og Íþróttaálfinum. Einmitt þess vegna höfðar hún til breiðari hóps,“ en Halla Hrund vísaði í rannsókn norrænu velferðarnefndarinnar sem leiðir í ljós að 30 prósent ungmenna á Íslandi nota nikótínpúða.
Alma áætlar að leggja fram frumvarp á haustþingi um niktótínvörur þar sem verða ákvæði er snúa að merkingum og markaðssetningu nikótínpúða, samanber þá sem auglýstir eru undir nafni Svens.